Tími

Sigurður Guðmundsson

Góðir áheyrendur,

Í þessum fyrirlestri vil ég að reyna að lýsa hugtakinu tíma, eins og fólk skynjar það í daglegu lífi, í því augnamiði að sýna fram á tengsl milli tíma og listar.

Afstæðiskenning Einsteins sannaði að tvær manneskjur geta skynjað þann tíma sem líður milli tveggja atburða sem mismunandi langan, og að skynjun beggja er veruleikanum samkvæmt. Kenning Einsteins innleiddi ekki aðeins hugmyndina um afstæði tímans, heldur einnig hugmyndina um afstæði veruleikans.

Viðtekin aðferð til tímamælingar er að skrá endurtekningu náttúrulegra atburða. Slíkur atburður er hringferð jarðar umhverfis sólu; hann kallast ár. Einn snúningur jarðar um möndul sinn nefnist sólarhringur. Afstaða sólar gagnvart jörðu ákvarðar tíma dags, klukkustundirnar.

Hér er um raunsanna viðburði að ræða sem við berum kennsl á um leið og þeir gerast. Óhikað lýsum við því yfir að dagurinn hefjist við sólar-upprás. Snúningur jarðar urn möndul sinn tryggir að nótt fylgir í kjölfar dags.

En hvernig vitum við hvort tímalengdin milli náttúrulegra viðburða, eins og hringferð jarðar umhverfis sólu, er alltaf sú sama? Eftilvill væri hægt að ganga úr skugga um það með hlutlausu mælitæki. Vandinn er sá að slíkt mælitæki yrði háð sömu náttúrulögmálum og atburðurinn sem mæla á, svo öll hugsanleg frávik yrðu alltaf þau sömu. Fræðilega séð þyrftum við ekki að taka eftir því hvort eitthvert eitt ár er helmingi lengra en annað.

Ásetningur minn er hvorki að véfengja né breyta viðvarandi tímakerfi, heldur vil ég sýna fram á að við skynjum tímann með öðrum hætti og að afstaða okkar til tímans er mjög frábrugðin því tímakerfi sem við búum við.

Ég tel að skynjun okkar og reynsla af tímanum ákvarðist eingöngu af snúningi jarðar um möndul sinn og enn síður af dagatali og klukkum. Ýmisleg önnur fyrirbæri eru mikilvægari tímavísar. Þau má finna alls staðar. Við mætum þeim stöðugt í umhverfi okkar.

Flest hrærumst við í umhverfi sem er að langmestu leyti gert af mannahöndum. Lítum til dæmis á það umhverfi sem við erum nú stödd í, gluggalaust rými. Hér er allt gert af mannahöndum.

Sjálf erum við framleidd af öðru fólki, eða þá að við eigum tilveru okkar að verulegu leyti að þakka tilteknum athöfnum annars fólks. Utanhúss erum við einnig umkringd mannanna verkum: bygg-ingum, strætum, bílum, matvælum, húsgögnum, fatnaði, litum og formum, en einnig töluðu og rituðu máli, tónlist og hávaða. Í bakgrunni er náttúran: jörð, haf og himinn. Strangt til tekið er umhverfi allt sem við skynjum utan sjálfra okkar. Þetta umhverfi er óspillt náttúran, menn og allt sem gert er af mannahöndum. Til að geta notað umhverfið sem tímavísi, verðum við að horfa framhjá náttúrunni. Að sjálfsögðu bendir snjór til þess að vetur sé genginn í garð. En snjórinn í dag er í engu ólíkur snjónum sem féll fyrir tuttugu árum. Hann kemur því ekki að miklu gagni þegar við viljum bera skyn á þann tíma sem við lifum í. Að vísu skilur náttúran eftir sig tímaslóða, en líf okkar er of stutt til að við getum upplifað tímaskeiðið milli tveggja ísalda, svo dæmi sé tekið.

Til að skynja þann tíma sem við lifum í horfum við því ekki til himna, heldur til hægri og vinstri, á mannfólkið og gjörðir þess. Það umhverfi er uppfullt af táknum um tímann. Þar „lesum“ við tímann. Þetta umhverfi skapar einum möguleika og gerir þá að engu fyrir annan. Það gengur fyrir eigin viljastyrk, hefur kröfur og aðra eiginleika sem minna á manninn. Í umhverfinu eiga allir hlutir sér fortíð. Þeir koma einhvers staðar frá. Púltið hér fyrir framan mig var eitt sinn hugmynd, og þar áður var það óorðuð löngun eða kennd. Öll mannanna verk eru hugmyndir sem breytt hefur verið í efni. Sérhver hlutur er vottur um hugmynd. Allir þessir hlutir, ásamt fólkinu sem finnur þá upp, gefa okkur skýra mynd af umhverfinu. Þar sem fólk hefur yfirleitt svipaðar hugmyndir og er önnum kafið við að breyta þeim í efni, eða – sem er algengara – vegna þess að það skortir tækifæri og hæfileika og lætur sér nægja að hlutgera hugmyndir annarra, fær umhverfið á sig sérstakt og allt að því samræmt útlit. Umhverfið sýnir hvað fólki liggur á hjarta, hvað það hugsar og hvernig því líður. Að baki allra hluta liggur hugsun, afsprengi einhvers konar viðhorfs, og því má líta á þá sem minnisvarða um viðhorf.

Umhverfið er ráðrík mynd. En þessi mynd er stöðugum breytingum undirorpin. Hluti fólks upplifir þessar breytingar sem hraðar, öðrum finnst bær ganga of hægt fyrir sig. En langflestir þjóðfélagsþegnar taka varla eftir breytingunum, vegna þess að þær gerast samhliða breytingunum sem eiga sér stað í þeim sjálfum. Þeir eru því samstiga heildarmyndinni.

Mynd umhverfisins breytist fyrir tilstilli þjóðfélagsþegnanna. Nýtt fólk leggur fram nýjar hugmyndir sem mynda nýtt umhverfi. Það eru einmitt þessar breytingar sem gegna hlutverki tímavísa. Stöðugar tilfærslur eiga sér stað sem hafa ekkert með sólstöður eða snúning jarðar að gera. Þess í stað eru breytingarnar sífellt skráðar í ákveðnu hugarfari, í kenndum, hugsunum og framkvæmdum.

Munurinn á árunum 1949 og 1969 verður ekki skýrður með tilvísun í þær tuttugu ferðir sem jörðin hefur farið kringum sólu, því á árunum 949 til 969 fór jörðin nefnilega sömu vegalengd, og á því tímabili voru breytingar í ýmsum samfélögum manna sennilega fremur hægar. Tímamunurinn verður til með breyttu hugarfari og hegðan fólks, breyttu viðhorfi þess til fegurðar og ljótleika. Nýr hugsunarháttur verður til, sem breytir svo aftur tímanum.

Ef ekki kæmu til áþreifanlegar breytingar á umhverfinu, mætti álykta að tíminn stæði kyrr. Það væri eins og ekkert hefði gerst. Mér verður hugsað til ævintýrsins um Þyrnirósu sem svaf í heila öld, en þar sem álfkonan góða svæfði einnig alla hirðina í heila öld fannst Þyrnirósu eins „hún hefði ekki sofið nema yfir blánóttina“. Hún hafði þetta ekki bara á tilfinningunni, því veruleikinn var á sömu leið: það kraumaði í pottinum, eldar voru kveiktir og allir voru úthvíldir. Ekkert benti til þess að þessi nótt hefði varað lengur en aðrar nætur. Þvert á móti var sýnt að nóttin hefði verið jafn löng og venjulega.

Ferð jarðar kringum sólu virðist í litlum tengslum við ferð okkar í tíma og rúmi. Þegar við hverfum frá einu tímaskeiði til annars, sjáum við mynd umhverfisins breytast — eins og gerist á öllum ferðalögum. Því umhverfið lætur okkur í té sannanir fyrir tilfærslu eða kyrrstöðu tímans. Lítum aftur á þessa margbrotnu og síbreytilegu mynd sem við köllum umhverfi.

Innviðir umhverfisins breytast mismunandi hratt. Kirkjur, stræti, torg og hús breytast hægar en föt, bílar, tónlist og listaverk, svo nokkur dæmi séu nefnd. Sumt í umhverfinu er ónæmara en annað fyrir tímanum. Þessar mismunandi breytingar minna á stóra og litla vísinn á klukku. Annað í umhverfinu er mjög næmt fyrir tímanum, til dæmis fatatíska, sem er eins og sekúnduvísirinn. Að frátöldum mannvirkjum og nokkrum gömlum listaverkum sem njóta verndar yfirvalda, er mestur hluti umhverfis okkar kröftug og síbreytileg heild.

Umhverfið breytist ekki upp á sitt einsdæmi. Að baki hverri breytingu stendur manneskja með orku og langanir. Tilurð hvers hlutar má rekja til hugmyndar. Göngum lengra og segjum að eitthvað sé að baki hugmyndinni. Áður en hugmynd verður að veruleika, er hún lögð í dóm tilfinninga; manneskjan með hugmyndina freistar þess að samræma hana kenndum sínum. Mér er hins vegar ljóst að mörgum tekst ekki að koma á þessu eftirsóknarverða samræmi.

Hugmynd verður ekki til úr engu, heldur kviknar hún af löngun sem á sér sömu rætur og kenndin sem verður að samþykkja framkvæmd hugmyndarinnar.

Allt sem við tökum okkur fyrir hendur er háð tilfinningalegu samþykki okkar sjálfra, þó svo tilfinningar okkar séu ekki alltaf háþróaðar. Þegar þessi meginkennd fær á sig form, nefni ég hana hugarfar. Við sjáum þess merki í umhverfinu, þar fær hugarfarið á sig mynd, verður þekkjanlegt.

Í rauninni er þetta hugarfar ekkert annað en notkun hugtakanna „rétt“ og „rangt“ eða enduróman þeirra í lýsingarorðunum „fagurt“ og „ljótt“ eða „skemmtilegt“ og „leiðinlegt“.

Skyn okkar á réttu og röngu ræður úrslitum um hugarfar okkar. Hugarfar okkar ber ábyrgð á því sem við gerum eða gerum ekki. Það sem við gerum eða gerum ekki blasir við í umhverfinu. Sá hluti umhverfisins sem skapaður er með þessum hætti (það er, meirihluti þess), hefur sterkasta útgeislun tímatákna. Og vegna þess að hægt er að rekja upphaf þessara tímatákna aftur til réttlætiskenndarinnar, langar mig að leggja fram eftirfarandi jöfnu:

hugmynd        efni           tákn tímans

Tilfinning fyrir sannleika     >                         >                   >

hugsun       hegðun      efnisgerving sannleikans

Hér sést hvernig sannleikur breytist í tíma, eða í hlut sem er í senn ígildi tímans og sannleikurinn efni klæddur. Sannleikur sem í upphafi er skynjaður af einni manneskju verður hugarfar sem fæðir af sér hugmyndir. Þegar hugmyndirnar hafa verið framkvæmdar eru þær túlkun á hugarfari og um leið minnismerki um sannleika.

Minnismerki sem gefur til kynna hver tíminn er.  Ég vil því draga þá ályktun af því sem hér hefur verið sagt að sannleikurinn sé orsök tímans og

að viðhorf okkar gagnvart sannleikanum ákvarði stöðu okkar í tíma og rúmi.

Ennfremur kveða almenn viðhorf þjóðfélagsins til sannleikans á um ímynd tímans, um það sem gerist og það sem gerist ekki. Söluhæsta dagblað landsins kemur til móts við þessi viðhorf. Stjórnmál og trúarbrögð eru hvorttveggja afsprengi þessara viðhorfa og sniðin að þörfum þeirra. Hið almenna viðhorf til sannleikans er umfangsmesta tímatal þjóðfélagsins. Samt bera margir ekki traust til tímatals þjóðfélagsins. Þar í hópi eru að mínum dómi listamenn. Sjálfur get ég ekki skýrt listræna köllun mína nema sem þörf til að móta persónulegt viðhorf til sannleikans og finna því áþreifanlegt form. Eftilvill fæðist sköpunargáfan í listamanninum þegar hið almenna viðhorf til sannleikans fullnægir honum ekki. Sjálfur tel ég mig ekki vera samtímamann þeirra sem lifa og hrærast á árinu 1969.

Ég skal reyna að skýra þetta nánar.

Segjum sem svo að einhver á meðal okkar sé uppfullur af kenndum (kenndum sem snerta sann-leika og fegurð) sem voru ríkjandi árið 1949. Við mundum álíta þennan aðila vera tuttugu árum á eftir tímanum. Hegðan hans er einkennandi fyrir almenna hegðan manna á árinu 1949. Við getum auðveldlega gengið úr skugga um að svo sé, því ýmsar leifar sannleiks-tíma minnisvarða frá árinu 1949 er enn að finna í því umhverfi sem við nú (1969) hrærumst í. Umræddur aðili heldur að hann sé staddur í nútíð 1969, en við vitum betur. Verk hans falla fullkomlega að leifum umhverfisins frá 1949. Viðhorf hans til góðs og ills; til fegurðar og ljótleika, er hið sama og þeirra sem lifðu fyrir tutt-ugu árum. Við getum ekki ferðast gegnum tímann samhliða þessum aðila. Hann er á eftir tímanum.

Við skynjum umhverfi okkar, það er, allt sem er fyrir utan okkur, með skynfærunum, af sjón, heyrn, lykt, bragði og snertingu. En skynfærin reisa einnig skorður við skynjun okkar. Við skynjum liti á bilinu frá rauðu til útfjólubláma. Litirnir á þessu bili eru okkur sýnilegur veruleiki. En við vitum líka af tilvist annarra lita. Þeir eru nálægir þótt við sjáum þá ekki. Lyktarskyni okkar eru einnig settar sömu skorður, o.s.frv.

Við nemum einnig kenndir annarra með skynfærunum. Við fáum ávæning af nýjum sannleika fyrir milligöngu skynfæranna. Ímyndum okkur að til sé maður sem skynjar liti og hljóð sem eru ofviða skynfærum okkar. Hann væri því undantekning, afbrigðilegur. En ef einhver einstaklingur er einn um að upplifa fegurð einhvers tiltekins forms, telst hann einnig vera undantekning, skrýtinn. Haldi hann áfram að vera einn með þessa reynslu sína, verður hann stórskrýtinn. Ef einhver annar kemur til sögunnar sem heyrir sömu hljóð og skynjar sömu fegurð í formunum, eru þeir skrýtnu orðnir tveir.

Því fleiri sem bætast í hóp þeirra, því venjulegri verða þeir. Þegar fjöldi fólks er farinn að heyra hljóðin og sjá litina, kemur að því að þeir sem ekki skynja þetta tvennt verða hin skrýtnu afbrigði.

Eftir á að hyggja er þetta næma fólk sem finnur fyrst til ekki svo skrýtið, heldur einu skrefi á undan samtímanum, skrefi sem aðrir eiga eftir að stíga.

Við skynjum sérstakt hugarfar í umhverfi okkar, en það er aftur afsprengi sérstakrar sannleikskenndar. Við neytum þessarar kenndar og öðlumst við það samkennd með þeim hlutum sem fela í sér þá kennd. Þeir eru okkur óræk sönnun þess að til sé áþreifanlegur veruleiki.

Til er fólk sem er á eftir tímanum í þjóðfélaginu, gamaldags fólk. Eins og allir aðrir þekkist það á gjörðum sínum, á viðhorfum sínum til góðs og ills, til sannleikans. Ein skýringin getur verið sú að fólk eldist og hugmyndir þess með. En alveg eins og í ævintýrinu um Þyrnirósu eru það ekki árin ein sem gera fólk gamaldags, heldur á sér stað ákveðin kölkun sannleiksviðhorfsins. Gamaldags fólk er því ekki eingöngu ellilífeyrisþegar.

Flest fólk lifir í þjóðfélagsnútíð, því meirihlutinn er viðmiðunin. Hver sá sem ekki þróast með samtíð sinni, lifir í þjóðfélagsþátíð. Samt telur hann sig vera í þjóðfélagsnútíð, vegna þess að hann sér einungis eigin veruleika sem er lítill hluti umhverfisins. Framtíð hans er þjóðfélagsnútíðin, eða getur orðið það. Hver sá sem er á undan sinni samtíð á sér nútíð þar sem þjóðfélagið á sér framtíð.

Þjóðfélagið (meirihlutinn) skilur það sem „gamaldags“ er án teljandi vandræða. Því ef hið „fyrnda“ er ekki allt of fjarlægt, hefur þjóðfélagið nýverið gengið í gegnum það og er sú veröld enn í fersku minni. Hins vegar er erfiðara fyrir „gamaldags“ fólk að skilja þjóðfélagið, þar sem það hefur aldrei upplifað það.

Framsæknu fólki, frumkvöðlum, reynist ekki erfitt að skilja mannfélagið. Hið gagnstæða er hins vegar erfiðara. Þannig getur tímaskynjun manna verið mismunandi í sama þjóðfélaginu, sem sjálft er stöðugum breytingum undirorpið og er á hreyf-ingu í tíma.

1949        1969           ?

A               B               C

Umhverfi samfélagsins 1949 er mjög frá-brugðið samfélagsmyndinni 1969. Nú erum við stödd á árinu 1969, en A (sá gamaldags) er staddur á árinu 1949. Tímans rás frá 1949 til 1969 veltir upp vísbendingum, formum, litum, hlutum, hugmyndum og umfram allt, nýrri sannleikskennd, sem gerir okkur kleift að skynja ólíkustu fyrirburði; venjulega, alvöru hluti, áþreifanlega hluti o.s.frv. A hefur ekki aðgang að þessum vísbendingum, vegna þess að hann hefur ekki haldið í við tímann allt til 1969. Hann hefur ekki farið þá ferð.

A er ókunnugur í þjóðfélagi samtímamannsins B. Hann heldur dauðahaldi í þær leifar af 1949 sem hann finnur í umhverfi samtíðarinnar. A lifir í veröld á hverfanda hveli. A getur vart gert sér í hugarlund umfang veraldar B. En eins og áður hefur verið vikið að, þekkir B mun betur til veraldarinnar en A. Veröldin, hið áþreifanlega umhverfi sem A hrærist í, er mun minni en veröld B, þar sem þjóðfélagið er sniðið að þörfum B.

En hvað um C, sem er á undan sinni samtíð? A veit varla af tilvist C. B er að sjálfsögðu í nánari tengslum við C. Sambandið milli B og C ræðst af þeirri fjarlægð í tíma sem er á milli þeirra. Er hægt að skilgreina þessa fjarlægð?

Ég reyni hér að sýna fram á að við sem stödd erum á árinu 1969 (í skynjanlegum og áreiðanlegum veruleika), erum í raun stödd á mismunandi tímaskeiðum, sem helgast af viðhorfum okkar til sannleikans.

C er þegar búinn að tileinka sér hugarfar og skilning á sannleika þess þjóðfélags sem B hrærist í. Hann hefur upplifað það, og vegna þess að hann hefur haldið ferðinni áfram, áleiðis til framtíðar, hefur hann kynnst veruleikanum sem þar ræður ríkjum. Hann er vel heima í nýjum kenndum, hugsar öðruvísi, sér hlutina öðruvísi, borðar öðruvísi, heyrir öðruvísi, hrærist í öðru, áþreifanlegu umhverfi.

Verk eða gjörðir C segja til um það hvar hann er staddur. Hann heldur áfram veginn, en skilur eftir verk sín. Þau minna á veggjakrot á borð við „Killroy was here“. Þarna í fjarskanum kemur eftilvill að því að hann fer að róast, setjast að einhvers staðar þar sem honum líður vel, til að vinna í friði að hugðarefnum sínum. Verk hans eru tímalaus að því leyti að þau geisla af staðfestu hugarfarins. Þau eru kyrrstæð og því tekst B á endanum að hlaupa þau uppi.

Þegar verk C hafa samsamast því þjóðfélagi sem B hrærist í (meirihlutasamfélaginu), þá er sennilega ómaksins vert að líta á tímatalið til að fá upplýsingar um ártalið (þannig kemur tímatalið loksins að gagni!).

Ef það tekur þjóðfélag B tuttugu ár að komast á það stig tíma og rúmi að skilningarvitin veiti um-hverfi B vísbendingar um að það hafi komist þangað sem C var með hælana, má segja að á árinu 1969 hafi C fengið forsmekkinn af veruleikanum árið 1989.

Tíminn er mikilvægur þáttur í allri list. Listin er mjög heppileg aðferð til að ferðast í tíma og rúmi. Flestar leiðir til nýrra tíma liggja gegnum listaverk. Við skynjum nýja myndlist, en hún opnar okkur nýjan heim sem er ekki draumur heldur veruleiki. Við látum gamla heiminn lönd og leið, höldum þó eftir nokkrum pinklum, eilitlum menningarlegum farangri eða lögvernduðum listaverkum. Af þeim getum við séð hvar við vorum stödd.

Tíminn eyðir öllu. Eftilvill eiga menjar mannsandans, sönnunargögn sannleikans, listaverkin, sér þó mestar lífslíkur.

Sigurður Guðmundsson

nóvember 1969

Fyrirlestur fluttur í Norræna húsinu, Reykjavík