Í ágúst 2011 ferðaðist Berglind Tómasdóttir í líki Rockriver Mary um Ísland og hélt tónleika í hjólhýsi víðs vegar um landið. Í kvikmyndinni The Trailer Project, sem sýnd verður í Bíó Paradís er ævintýrum Rockriver Mary á tónleikaferðalaginu fylgt eftir.
Samhliða sýningu myndarinnar verður haldin yfirlitssýningin Rockriver Mary – Endurlit, í anddyri Bíó Paradísar. Sýningin er helguð arfleifð Rockriver Mary og má þar bera augum nýja útgáfu hljóðfærisins Lokks undir lifandi tónlistarflutningi Berglindar Maríu og vina. Sýningin er í senn útgáfufögnuður nýrrar bókar Berglindar, Tvísöngur, og útgáfu tónlistar fyrir hljóðfærið Lokk á kassettu, geisladiski og á stafrænum miðlum.
Berglind María Tómasdóttir (f. 1973) er flautuleikari og tónskáld sem vinnur þvert á miðla. Í verkum sínum leitast hún við að kanna ímyndir og erkitýpur sem og tónlist sem félagslegt fyrirbæri.
Sem flautuleikari hefur Berglind komið fram á hátíðum víðs vegar í Bandaríkjunum og á Íslandi. Hún hefur jafnframt leikið inn á fjölda hljóðrita, meðal annars sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Verk Berglindar hafa meðal annars verið pöntuð og flutt á vegum Flautusamtaka Bandaríkjanna (The National Flute Association), Norrænna músíkdaga, Myrkra músíkdaga og Listahátíðar í Reykjavík.
Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið og lauk doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego árið 2013. Berglind er prófessor við Listaháskóla Íslands.