Munnhola, obol ombra houp-là (a series of performances) eftir listakonuna og skáldið Ástu Fanney Sigurðardóttur (f. 1987) er safn gjörninga þar sem hljóð, ljóð, hljóðaljóð, tónar, stafir, orð og orðlausar senur mynda saman súrrealískan draumheim skynjunar. Í verkinu er röddin rannsökuð sem einstakur miðill og virkar sem þráður í gegnum ferðalag af táknum, stöfum og tengingu mannsins við náttúru, tungumál, tækni, leiki og dægurmenningu. Verkið er frumsýnt á Sequences X: Kominn tími til.
Ásta Fanney Sigurðardóttir (f. 1987) er listakona og skáld. Hún vinnur meðal annars með tóna, hljóð og orð í verkum sínum, ásamt gjörningum. Verk hennar hverfast oft um hið óvænta og fáránlega þar sem mörk ólíkra miðla mást út. Árið 2018 sýndi hún gjörningaverkið Lunar-10.13 & Gáta Nórensu á Listahátíð í Reykjavík, þar sem ljóð, tónlist, innsetningar og gjörningar runnu saman í eitt. Meðal verka hennar er þorskaópera, raulkórverk, hljóðaljóðakórverk og sérhljóðatónverk. Nýjasta bók hennar nefnist Gluggi – draumskrá sem er skrásetning á draumum. Ásta hefur flutt tónverk sín, ljóð og gjörninga á ýmsum hátíðum og sýningum bæði hérlendis og erlendis. Hún var handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör árið 2017 og var tilnefnd til Bernard Heidsieck-verðlaunanna í Pompidou árið 2021.