/ SKÖPUN / EYÐING / er titill sýningar Sequences í Marshallhúsinu sem tekur yfir sýningarrými Nýlistasafnsins og Kling & Bang. Titill sýningarinnar er vísun í texta Sigurðar Guðmundssonar, TÍMI, sem er til sýnis á hátíðinni og hægt er að finna á heimasíðu hátíðarinnar og sýningarskrá:
Tíminn er mikilvægur þáttur í allri list. Listin er mjög heppileg aðferð til að ferðast í tíma og rúmi. Flestar leiðir til nýrra tíma liggja gegnum listaverk.
Við skynjum nýja myndlist, en hún opnar okkur nýjan heim sem er ekki draumur heldur veruleiki. Við látum gamla heiminn lönd og leið, höldum þó eftir nokkrum pinklum, eilitlum menningarlegum farangri eða lögvernduðum listaverkum. Af þeim getum við séð hvar við vorum stödd.
Tíminn eyðir öllu. Eftilvill eiga menjar mannsandans, sönnunargögn sannleikans, listaverkin, sér þó mestar lífslíkur.
Sigurður Guðmundsson
nóvember 1969
Fyrirlestur fluttur í Norræna húsinu, Reykjavík
Björk Guðnadóttir (f. 1969) leitar víða fanga í listsköpun sinni og til þess notar hún ýmiskonar efnivið eins og léreft, ullargarn, plast, gifs og vax. Björk hefur haldið einkasýningar og verið valin til þess að taka þátt í mörgum samsýningum, bæði hér á landi og erlendis. Hún hefur hlotið fjölmarga styrki og verk eftir hana eru í eigu listasafna og safnara. Björk er meðlimur í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og Nýlistasafninu.
Guðlaug Mía Eyþórsdóttir (f.1988) útskrifaðist með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2012 og stundaði síðar meistarnám í myndlist við Koninklijke Academie í Gent, þaðan sem hún útskrifaðist árið 2018. Í myndlist sinni skoðar Guðlaug skúlptúríska þætti í manngerðu umhverfi okkar, gaumgæfir þau form, áferðir og gjörðir sem nærumhverfi okkar samanstanda af og kannar hvort efnisgera megi daglegar athafnir.
Gunnhildur Hauksdottir (f. 1972) hlaut MFA frá Sandberg Institute í Amsterdam, Hollandi árið 2006 og BFA Listaháskóla Íslands árið 2002. Verk hennar er að finna í safneignum Listasafns Íslands og Nýlistasafninu í Reykjavík. Í safneign Uppsala Konstmuseum og Goethe Institute í Kaupmannahöfn og Hess Gallery, safneign Háskólans í Lethbridge í Kanada. Verk hennar hafa verið flutt og tekin til sýninga víða á ferli hennar. Hún tók m.a. þátt í Silver Lining, Collateral Event á 56. Feneyjatvíæringnum árið 2015. Hún hefur sýnt í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Galleria Municipal do Porto í Portúgal, í Kunstmuseum Liechtenstein, Uppsala Konstmuseum og í 21 Haus hjá Belvedere Museum í Vín. Gunnhildur hefur sterk tengsl við Seyðisfjörð og hefur búið þar af og til síðan hún hóf feril sinn. Hún býr og starfar við myndlist í Reykjavík og Berlín.
Nemendur úr 6. bekk í Fellaskóla hafa á haustdögum, undir umsjón Gretu S. Guðmundsdóttur, myndlistarkonu og kennara, kynnt sér hina umfangsmiklu safneign Nýlistasafnsins, sem staðsett er í næsta nágrenni skólans við Völvufell. Hafa þeir verið að kynna sér safneignina með það fyrir augum að velja úr verk til sýningar í sýningarrými Nýlistasafnsins í Marshallhúsinu. Nemendurnir taka að sér hlutverk sýningarstjóra og hafa frjálsar hendur með val verkanna og bera þeir á borð þau verk sem vakið hafa áhuga þeirra og hylli. Er sýning þeirra á verkum safneignar Nýlistasafnsins jafnframt hluti af sýningu Sequences í Marshallhúsinu.
Sýningarstjórar eru: Aleksandrs Romanuks, Amelía Ösp Hagalín, Fábio Mikael Ferreira, Katla M. Svarfdal Ágústsdóttir, Katrín Snædís Konecna, Layla Judith Nagua Chasi, Lena Björk Pudo, Majka Drzyzga, Rúnar Þór Styrmisson, Sandra Wrzosek og Suvam Bahadur Chhetri.
Pétur Magnússon (f. 1958) fæddist í Reykjavík. Eftir menntaskóla fór hann í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðan áfram á Accademia delle belle Arti í Bologna, Ítalíu og að lokum í Rijksakademie van Beeldende Kunsten í Amsterdam, Hollandi. Að loknu námi árið 1986 var hann búsettur í Amsterdam til ársins 2003, en flutti þá til Íslands. Í Hollandi tók hann þátt í stofnun listaverkabókabúðarinnar „Boekie Woekie“ sem jafnframt er gallerí og útgefandi. Hann starfaði með fyrirtækinu fyrstu árin. Boekie Woekie kynnti síðan verk hans á „Art Frankfurt“ listamessunni í Þýskalandi árið 1996. Pétur lærði málun á Ítalíu og grafík í Hollandi og eldri verk hans bera þess merki. Með tímanum hefur hann fært sig yfir í ljósmyndir og skúlptúr, oft lágmyndir og einkennast aðferðir hans oft á blöndu af stálsmíði og ljósmyndun. Verk hans láta reyna á skynjunina og ögra henni meðan þau bjóða upp á nýja möguleika til að skynja umhverfið. Verkin eru oftar en ekki háð sýningarrýminu (e. site specific). Efni og fjarvídd spila oft stórt hlutverk í að eiga við umhverfið á heimspekilegan og skoplegan máta.
Borgar Magnason er kontrabassaleikari og tónskáld, hann gerir gjarnan hljóðheim við hið sjónræna, þ.m.t. myndlistarverk; er nátengdur sjónrænni túlkun og hefur löngum unnið úr myndlist í verkum sínum.
Nemendur úr Menntaskóla í Tónlist, koma fram og túlka í tónum og hljóðum verk Guðlaugar Míu Eyþórsdóttur, Tilbrigði, sem sýnt er á sýningunni / SKÖPUN / EYÐING / í Nýlistasafninu.
Skerpla er tónlistarhópur sem starfar innan Listaháskóla Íslands og var stofnaður haustið 2018. Skerpla rannsakar, skapar og flytur tónlist af tilraunakenndum toga með það að markmiði að víkka út hefðbundnar hugmyndir um tónlist. Berglind María Tómasdóttir, prófessor við Listaháskóla Íslands, leiðir Skerplu.
Nemendur úr Skólahljómsveit Austurbæjar, í umsjón Bjargar Brjánsdóttur, koma fram og túlka í tónum og hljóðum verk Guðlaugar Míu Eyþórsdóttur, Tilbrigði, sem sýnt er á sýningunni / SKÖPUN / EYÐING / í Nýlistasafninu.