Borgar Magnason

(IS)

Borgar Magnason hefur á ferli sínum ítrekað sýnt að hann er á meðal fjölhæfustu og frumlegustu tónlistarmanna. Hann er menntaður í sígildri tónlist en starfar óháður greinum, áhugasvið hans spannar allt frá því að semja tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp og leikhús, til einleiksflutnings á framúrstefnulegri nútímatónlist, til margmiðlunarsamvinnuverkefna, auk þess sem hann hefur útsett tónlist fyrir Andrea Bocelli, meðal annars, og bætt bassadrunum, einkennishljómi sínum, við tónlist Sigur Rósar. Tónlist hans við uppfærslu Þjóðleikhússins af Föðurnum eftir Florian Zeller var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2017.

Borgar lærði upprunalega á klassískan kontrabassa og hóf feril sinn með því að spila með ýmsum hljómsveitum og samleikshópum báðum megin Atlantshafsins auk þess sem hann var aðstoðarkennari í nútímaflutningi við bæði Juilliard og Mannes í New York.

Dálæti hans á hljómmöguleikum kontrabassans og tónverkum leiddi Borgar í átt að samvinnuverkefnum í nútímadansi og sjónlistum. Hrifning hans á síðarnefnda miðlinum gat af sér samvinnu við meðal annars kvikmyndagerðarmanninn Guy Maddin, hollensku myndbandslistamennina 33 1/3, Húbert Nóa, ítalska listatvíeykið Masbedo og Gabríelu Friðriksdóttur.

Sem tónlistarmaður hefur hann unnið með, spilað og tekið upp með fjölbreyttum hópi annarra listamanna, þar á meðal Michel Legrand, Yoko Kanno, Brian Eno, Damien Rice, Howie B, Sigur Rós, Nico Muhly, Ane Brun, Björk, Ben Frost, Puzzle Muteson og Daníel Bjarnasyni.

Árið 2013 var Borgar tónlistarstjóri og útsetjari Wasp Factory, óperu eftir Ben Frost sem var heimsfrumsýnd á Bregenz-listahátíðinni sama ár og síðar sýnd í ýmsum óperuhúsum um allan heim, þar á meðal á fjölda sýninga í Royal Opera House í London.

Associated events: