/ SKÖPUN / EYÐING / Gunnhildur Hauksdóttir: Skriða – lifandi flutningur með Borgari Magnasyni

16.10.2021

14:00

Skriða samanstendur af hljóðverki og innsetningu í innsta rými Nýlistasafnsins. Verkið byggir á gögnum frá Veðurstofu Íslands um þá jarðfræðilegu umbreytingu sem átti sér stað þegar aurskriða féll úr Strandatindi fyrir ofan Seyðisfjarðarbæ í desember 2020 með þeim afleiðingum að hús ruddust á haf út. Atburðurinn hafði djúpstæð áhrif á allt samfélagið og varanleg áhrif á bæjarmyndina. Þetta er ein stærsta skriða í manna minnum sem fallið hefur á Íslandi. Innsetningin setur á svið grjót sem Gunnhildur sótti úr sárinu sem skriðan skildi eftir sig í fjallshlíðinni. Grjótið er lagt í satínborða sem hanga úr loftinu, og mynda pendúla, umlukta hljóðritun af tónsmíð sem byggir á teikningum Gunnhildar. Teikningarnar eru gerðar með hliðsjón af ímynduðu tímaskyni jarðar og eru unnar uppúr skýrslum jarðfræðinga hjá veðurstofunni. Þannig á hljóðgerving jarðfræðilegra umbreytinga rætur sínar í hugleiðingum um mismunandi tímaskyn, skynjun mannfólks á framrás tíma annars vegar, og hinsvegar út frá ímynduðu tímaskyni jarðar, jarðvera; fjalla, vatns og grjóts.

Verkið er unnið í samstarfi við ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands sem veitti Gunnhildi aðgang að skýrslum og áhættumati um atburðinn. Útfrá gögnunum vann Gunnhildur að teikningum sem hún útfærði í tónmál fyrir Borgar Magnason kontrabassaleikara.

Úr loftinu hanga grjót sem fengin eru úr sárinu við rætur Strandatinds á Seyðisfirði, og hreyfast þar til og frá  líkt og pendúlar. Hreyfing bassabogans er samstíg hreyfingu grjótsins þar sem kontrabassinn ljær grjótinu rödd sína og gefur hlustendum innsýn í ímyndað tímaskyn jarðefna. Borgar og Gunnhildur hafa unnið saman að því að túlka teikningarnar fyrir bassann, þau teygja á tímanum í skriðum og bogaföllum.

Gunnhildur Hauksdottir (f. 1972) hlaut MFA frá Sandberg Institute í Amsterdam, Hollandi árið 2006 og BFA Listaháskóla Íslands árið 2002. Verk hennar er að finna í safneignum Listasafns Íslands og Nýlistasafninu í Reykjavík. Í safneign Uppsala Konstmuseum og Goethe Institute í Kaupmannahöfn og Hess Gallery, safneign Háskólans í Lethbridge í Kanada. Verk hennar hafa verið flutt og tekin til sýninga víða á ferli hennar. Hún tók m.a. þátt í  Silver Lining, Collateral Event á 56. Feneyjatvíæringnum árið 2015. Hún hefur sýnt í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Galleria Municipal do Porto í Portúgal, í Kunstmuseum Liechtenstein, Uppsala Konstmuseum og  í 21 Haus hjá Belvedere Museum í Vín. Gunnhildur hefur sterk tengsl við Seyðisfjörð og hefur búið þar af og til síðan hún hóf feril sinn. Hún býr og starfar við myndlist í Reykjavík og Berlín.

Borgar Magnason er kontrabassaleikari og tónskáld, hann gerir gjarnan hljóðheim við hið sjónræna, þ.m.t. myndlistarverk; er nátengdur sjónrænni túlkun og hefur löngum unnið úr myndlist í verkum sínum.

Skriða © Gunnhildur Hauksdóttir