Anna Margrét Ólafsdóttir: Samdrykkja

22.10.2021

–24.10.2021

Opnun 22. október klukkan 17-19.

 

Rómantík sem tilfinning er sannkölluð joie de vivre. Ef hversdagurinn er beinagrind er rómantík kjötið sem umlykur beinagrindina. Rómantíkin er það sem gerir lífið safaríkt og hjálpar fólki að njóta augnabliksins. Rómantík er alls konar, hún getur verið milli elskhuga, vina, með sjálfum sér, fjölskyldu eða ókunnugum. Eða hvað? Er rómantík gjörð, sýn, upplifun eða lífstíll? Hver er munurinn á ást og rómantík? Er ást tilfinning á meðan rómantík er gjörð? Er hún prívat eða almennings? Hversu langt er fólk tilbúið að ganga í rómantískum tilgangi óháð væntingum samfélagsins? Í þessu verki býðst ólíkum einstaklingum að sameinast yfir spurningum og pælingum um rómantík  undir þeim formerkjum að finna listræna útkomu í þeim tilgangi að bjóða í rómantískt boð. En hverjum?

Anna Margrét (f.1992) útskrifaðist frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2019. Á öðru ári stundaði hún nám við École Supérieure d’Art de La Réunion í eina önn. Eftir námið flutti hún til Helsinki þar sem hún var starfsnemi hjá finnsku listakonunni Pilvi Takala og vann að undirbúningi fyrir verk hennar á Feneyjartværingnum 2022. Eftir að hafa stundað nám við LungA Skólann haustið 2014 flutti Anna Margrét aftur á Seyðisfjörð síðasta haust þar sem hún vann með börnum og lagði stund á eigin listsköpun. Í verkum sínum vinnur Anna Margrét með myndbirtingar neyslusamfélagsins. Með því að umbreyta ýmsum hversdagslegum viðfangsefnum inn í listsamhengið, rannsakar hún hvernig þau koma fyrir í tilverunni okkar. Hún veltir fyrir sér hvernig nútímaeinstaklingurinn skapar ímynd sína í samhengi við tilætlanir neyslusamfélagsins og setur þær pælingar fram á írónískan og kómískan hátt. Anna Margrét stundar nú alþjóðlegt meistarnám í sviðslistum við Listaháskóla Íslands.