Anna Margrét (f.1992) útskrifaðist frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2019. Á öðru ári stundaði hún nám við École Supérieure d’Art de La Réunion í eina önn. Eftir námið flutti hún til Helsinki þar sem hún var starfsnemi hjá finnsku listakonunni Pilvi Takala og vann að undirbúningi fyrir verk hennar á Feneyjartværingnum 2022. Eftir að hafa stundað nám við LungA Skólann haustið 2014 flutti Anna Margrét aftur á Seyðisfjörð síðasta haust þar sem hún vann með börnum og lagði stund á eigin listsköpun. Í verkum sínum vinnur Anna Margrét með myndbirtingar neyslusamfélagsins. Með því að umbreyta ýmsum hversdagslegum viðfangsefnum inn í listsamhengið, rannsakar hún hvernig þau koma fyrir í tilverunni okkar. Hún veltir fyrir sér hvernig nútímaeinstaklingurinn skapar ímynd sína í samhengi við tilætlanir neyslusamfélagsins og setur þær pælingar fram á írónískan og kómískan hátt. Anna Margrét stundar nú alþjóðlegt meistarnám í sviðslistum við Listaháskóla Íslands.