Elísabet Jökulsdóttir: Sköpunarsögur

15.10.2021

17:00

–19:00

Opnunarviðburður Sequences, er gjörningur Elísabetar Jökulsdóttur, Sköpunarsögur, sem fluttur verður í Veröld – Húsi Vigdísar Finnbogadóttur. Um gjörninginn segir Elísabet:

Ætlunin er að draga fram fjölbreytni sköpunarsagna og jafnframt athuga hvað þær eiga sameiginlegt. Þessi árin er mikið rætt um sköpun en enginn virðist vita nákvæmlega hvað það er. Þess vegna ætla ég að sýna formúlu fyrir sköpun / eyðingu en að mínu viti er það sitthvor hliðin á sama teningnum.  Og hver veit nema þriðja aflið komi í ljós? Heimurinn skapast og heimurinn eyðist.

Þar sem Veröld – hús Vigdísar Finnbogadóttur er hús tungumálanna, legg ég áherslu á mismunandi „tungumál“ sköpunarsagnana og kynntar verða sögur frá ýmsum löndum og menningarsamfélögum;  Indland, Kína, Kúrdistan,  Japan, Rússland, Kóraninn, Móðir hafsins, Dvergatal úr Völuspá, – öll þessi lönd og hugtök eiga athvarf á gjörningi þessum.

Og það verður líka spáð í sköpunarsögu persónu. Hvernig verður persónuleiki eða einstaklingur til? Þá mun prófessor útskýra sköpun heimsins á vísindalegan hátt.

Gjörningurinn er skemmtilegur, og snertir strengi í hjörtum okkar allra, fjölbreyttur og sýnir hið sameiginlega sem mannkynið á.

Það fer vel á því að Sköpunarsögur verði fluttar í Húsi Vigdísar Finnbogadóttur þar sem fjölbreytni og túlkunar – og miðlunareiginleikar tungumálanna búa.

Þáttakendur:

Áslaug Jóhannesdóttir
Birta Marselía
Elín Agla
Friðgeir Einarsson
Gabríel Brim
Lenya Rún Taha Karim
María Solomatina
Sigurður Ingólfsson
Snæbjörn Brynjarsson
Sævar Helgi Bragason
Unnur Jökulsdóttir
Vera Illugadóttir

Heiðurslistamaður Sequences X – Kominn tími til er Elísabet Kristín Jökulsdóttir. Elísabet hefur þá hæfileika að geta spunnið þræði á milli ólíkra listforma og notar rödd sína til þess að segja hlutina hispurslaust, en jafnframt minnir okkur á töfrana. Elísabet býr yfir tungumáli gyðjunnar og birtist okkur í ólíkum myndum; skapar og eyðir til skiptis, er utan og innan við og leikur sér að því að dansa á línunni þar á milli. Í verkum sínum er Elísabet greinandi á eigið sjálf og þjóðarinnar og tekst á við hið útópíska hlutverk listarinnar sem hreyfandi afli í samfélaginu. Liggur styrkur hennar í því lifandi og margbreytilega sambandi sem hún á við áhorfendur og áheyrendur sína, þar sem hún sjálf er sem almenningslistaverk sem stöðugt hreyfir við hugmyndum samfélagsins og hreyfir þannig við tímanum og tekur þátt í hinni eilífu endursköpun heimsins.

Mynd / Photo: Sverrir Björnsson