/ SKÖPUN / EYÐING /

16.10.2021

–21.11.2021

/ SKÖPUN / EYÐING / er titill sýningar Sequences í Marshallhúsinu sem tekur yfir sýningarrými Nýlistasafnsins og Kling & Bang. Titill sýningarinnar er vísun í texta Sigurðar Guðmundssonar, TÍMI, sem er til sýnis á hátíðinni og hægt er að finna á heimasíðu hátíðarinnar og sýningarskrá:

Tíminn er mikilvægur þáttur í allri list. Listin er mjög heppileg aðferð til að ferðast í tíma og rúmi. Flestar leiðir til nýrra tíma liggja gegnum listaverk. 

Við skynjum nýja myndlist, en hún opnar okkur nýjan heim sem er ekki draumur heldur veruleiki. Við látum gamla heiminn lönd og leið, höldum þó eftir nokkrum pinklum, eilitlum menningarlegum farangri eða lögvernduðum listaverkum. Af þeim getum við séð hvar við vorum stödd.

Tíminn eyðir öllu. Eftilvill eiga menjar mannsandans, sönnunargögn sannleikans, listaverkin, sér þó mestar lífslíkur.

Sigurður Guðmundsson
nóvember 1969
Fyrirlestur fluttur í Norræna húsinu, Reykjavík

(CH/IS)

Andreas Brunner (f. 1988) fæddist í Zurich í Sviss og býr nú í Reykjavík. Verk hans eru yfirleitt ekki sérstaklega bundin ákveðnum miðli, heldur tengjast þau endurskoðun á hugmyndum sem geta birst í ýmsum myndum. Þessar hugmyndir fjalla um þróun menningar, merkingar og skynjun á tíma, rúmi og efni. Þannig myndast þráður verka hans í hugmyndinni frekar en því sjónræna. Að aftengja mynd og merkingu, og skapa nýja, má líta á sem heildarhvata verka hans. 

Ásta Fanney Sigurðardóttir (f. 1987) er listakona og skáld. Hún vinnur meðal annars með tóna, hljóð og orð í verkum sínum, ásamt gjörningum. Verk hennar hverfast oft um hið óvænta og fáránlega þar sem mörk ólíkra miðla mást út. Árið 2018 sýndi hún gjörningaverkið Lunar-10.13 & Gáta Nórensu á Listahátíð í Reykjavík, þar sem ljóð, tónlist, innsetningar og gjörningar runnu saman í eitt. Meðal verka hennar er þorskaópera, raulkórverk, hljóðaljóðakórverk og sérhljóðatónverk. Nýjasta bók hennar nefnist Gluggi – draumskrá sem er skrásetning á draumum. Ásta hefur flutt tónverk sín, ljóð og gjörninga á ýmsum hátíðum og sýningum bæði hérlendis og erlendis. Hún var handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör árið 2017 og var tilnefnd til Bernard Heidsieck-verðlaunanna í Pompidou árið 2021.

Tónsmíðar Bergrúnar Snæbjörnsdóttur (f. 1987) hafa verið fluttar í formi kammer- og hljóðverka víðsvegar um Evrópu, Bandaríkin  Ástralíu og í Asíu af hópum eins og Oslo Philharmonic (NO), International Contemporary Ensemble ICE (US), Sinfóníuhljómsveit Íslands, Nordic Affect (IS), Avanti! Kammersveit (FI) og fleirum. Hún er handhafi Hildegard verðlauna The National Sawdust árið 2019. Þá hafa verk hennar verið valin til flutnings á virtum tónlistarhátíðum eins og Mostly Mozart Festival í Lincoln Center (New York), ISCM World Music Days (Peking), Sound of Stockholm, Ultima Festival (Oslo), Nordic Music Days (London, Bodø, Reykjavík), Only Connect (Oslo), SPOR (Árósir), Tectonics Music Festival (Glasgow/Reykjavík), Prototype (New York), Classical NEXT (Rotterdam) og KLANG (Kaupmannahöfn) auk annarra viðburða. 

Nýlókórinn var stofnaður 2003 og fæst við flutning hljóðljóða. Kórinn kemur fram tvisvar til þrisvar á ári og hefur flutt margvísleg verk eftir innlenda og erlenda höfunda eins og Magnús Pálsson, Philip Corner, Eric Andersen, Hörð Bragason, Kristin G. Harðarson, Rúrí, Hörpu Björnsdóttur, Ástu Ólafsdóttur, Eiríksínu Ásgrímsdóttur, Áka Ásgeirsson, Magneu Ásmundsdóttur, Þorkel Atlason, Rod Summers, Níels Hafstein, Guðmund Haraldsson og Magnús Jensson.