Nýlókórinn flytur útgafu af verkinu Oasis of endless change.
Ásta Fanney Sigurðardóttir (f. 1987) er listakona og skáld. Hún vinnur meðal annars með tóna, hljóð og orð í verkum sínum, ásamt gjörningum. Verk hennar hverfast oft um hið óvænta og fáránlega þar sem mörk ólíkra miðla mást út. Árið 2018 sýndi hún gjörningaverkið Lunar-10.13 & Gáta Nórensu á Listahátíð í Reykjavík, þar sem ljóð, tónlist, innsetningar og gjörningar runnu saman í eitt. Meðal verka hennar er þorskaópera, raulkórverk, hljóðaljóðakórverk og sérhljóðatónverk. Nýjasta bók hennar nefnist Gluggi – draumskrá sem er skrásetning á draumum. Ásta hefur flutt tónverk sín, ljóð og gjörninga á ýmsum hátíðum og sýningum bæði hérlendis og erlendis. Hún var handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör árið 2017 og var tilnefnd til Bernard Heidsieck-verðlaunanna í Pompidou árið 2021.
Nýlókórinn var stofnaður 2003 og fæst við flutning hljóðljóða. Kórinn kemur fram tvisvar til þrisvar á ári og hefur flutt margvísleg verk eftir innlenda og erlenda höfunda eins og Magnús Pálsson, Philip Corner, Eric Andersen, Hörð Bragason, Kristin G. Harðarson, Rúrí, Hörpu Björnsdóttur, Ástu Ólafsdóttur, Eiríksínu Ásgrímsdóttur, Áka Ásgeirsson, Magneu Ásmundsdóttur, Þorkel Atlason, Rod Summers, Níels Hafstein, Guðmund Haraldsson og Magnús Jensson.