Sunnudaginn 17. Október, kl. 20 í Hafnarborg fara fram tónleikar Juliu Eckhardt, víóluleikara og John McCowen, kontrabassaleikara og tónskálds, sem haldnir verða í samstarfi við tónleikaröð Hafnarborgar, Hljóðön. Efnisskrá tónleikanna hverfist um ferðalag hlustunarinnar um yfirborð hljóðanna. Julia Eckhardt flytur verk Éliane Radigue, OCCAM IV, sem samið er sérstaklega fyrir Juliu. Tónlist Radigue er í senn lágstemmd og stórbrotin, þar sem iðandi líf leynist undir stilltu yfirborði hljóðheimsins. Julia flytur einnig verk sitt, Mother Viola (Study #1) sem dansar á mörkum tungumáls og hljóðanna.
Í verki sínu, Models of Duration, þenur John McCowen út hljóðheim hljóðfæris síns svo að það birtist okkur að er virðist smásjár lífheimur innan hljóðsins.
Hljóðön er tónleikaröð Hafnarborgar tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir.
Tónleikarnir njóta stuðnings Tónlistarsjóðs og Franska Sendiráðsins á Íslandi.
Éliane Radigue (fædd 1932 í París) er talin á meðal fremstu og áhrifamestu tónskálda samtímatónlistar í dag, bæði í heimi raftónlistar og kammertónlistar. Áhrifa á tónlist hennar má að einum þræði rekja til musique concrète-stefnunnar í Frakklandi og öðrum þræði til reglulegra dvala í Bandaríkjunum þar sem hún kynntist heimi hljóðgervla á frumárum þeirra. Tónlist Radigue er í senn lágstemmd og stórbrotin, þar sem iðandi líf leynist undir stilltu yfirborði hljóðheimsins. Í gegnum íhugula nálgun sína á hlustun og hljóðið sjálft, hefur Radigue tekist að skapa nýjar leiðir til þess að meitla út hugmyndir sínar í hljóð.
John McCowen er tónskáld og flytjandi sem einblínir í tónlist sinni á að þenja út mörk og möguleika klarínettsins. Drónn, samsláttartónar og samsláttur yfirtóna sem bregður fyrir í tónlist hans þar sem hann leitast við að víkka út hljóðheim hljóðfærisins.
Julia Eckhardt starfar á mörkum hljóðlistar, spunalistar og samtímatónlistar sem flytjandi, höfundur og skipuleggjandi. Er hún stofnmeðlimur og listrænn meðstjórnandi Q-O2 vinnurýmisins í Brussel, þar sem hún hefur meðal annars stofnað til og starfað að listverkefnum á borð við Field Fest, Tuned City Brussels, Interpretations., the other the self, //2009//- what do you make of what I say, DoUndo/Recycling G, Abstract Adventures, De Tijd is Rond og Speling.
Sem flytjandi og spunaleikari hefur Julia starfað náið með tónskáldinu Éliane Radigue sem og með öðrum listamönnum á borð við Phill Niblock, Pauline Oliveros, Jennifer Walshe, Wandelweiser-tónskáldahópnum, Rhodri Davies, Taku Sugimoto, Manfred Werder, Angharad Davies, Lucio Capece, Manu Holterbach, Anne Wellmer og Carol Robinson. Hafa sum þeirra samstarfsverkefna verið gefin út í hljóðriti.