Get ekki séð - JARÐVEGUR

13.10.2023

–26.11.2023

12:00

–18:00

Þessi kafli varpar ljósi á það sem leynist undir fótum okkar. Jarðvegurinn er bullandi, molnandi yfirborð þar sem vakandi auga getur uppgötvað fjölbreytt líf. Mannskepnan tekur sjaldnast eftir því hvernig lífið í jarðveginum fylgir sínum eigin lögmálum og hringrás. Jörðin hjá Kling & Bang er jafn eyðilögð og hún er blómstrandi, hún er heim- sendir og nýtt upphaf í senn. Manngerður garðurinn er hruninn og þráir að tortímast algjörlega. Nýtt líf er að vakna inni í fúnum viðarbol. Undarlegar verur skríða um rýmið og landslagið sem kemur síðar í ljós dáleiðir okkur með undurfögru útsýni.

Sýningin sprettur úr myrkri sem umlykur. Hún hefst á þeirri tilfinningu að heimurinn sé að molna í höndum okkar, á meðan hvassviðrið þyrlar síðustu dropunum af dreggjum hans enn lengra.Við sjáum ekki sívaxandi ógn vistfræðilegrar eyðileggingar, rétt eins og við sjáum ekki mögulegar nýjar leiðir og líf sem gæti kviknað úr rústum gamla heimsins.

Get ekki séð er skipt í fjóra kafla sem veita innsýn í rýmin og andartökin sem mannlegt auga nemur yfirleitt ekki: allt frá hafsbotni og jarðlögunum að braki fortíðar og draumum um framtíðina. Sögurnar eru sagðar frá ýmsum sjónarhornum, allt frá blendingsfuglum að bakteríum, að sjávarlífverum, ævafornu tré eða óþreytandi vindinum. Mark- miðið er að velta upp ólíkum leiðum til að sjá og upplifa heiminn og fjarlægjast þannig þau sjónarhorn sem við eigum að venjast. Teygjanlegur tími leyfir okkur að ferðast langt aftur í goðsagnakennda fortíð eða ímynda okkur ókomna framtíð.

Heikkilä er heilluð af samvinnu lífvera neðanjarðar, allt frá þráðormum til sveppa, gróa til mýsla (e. mycelium). Hún finnur form í skúlptúrum og stórum málverkum og leitast við að skapa rými fyrir manneskjur til að ímynda sér nálæg kynni eða upplifun af þeim ósýnilegu ferlum sem eiga sér stað í jarðveginum, oft aðeins sjáanlega í smásjá.

Antti Laitinen sækir innblástur í hversdagslegt umhverfi sitt með því að afbyggja það – safna, klippa, beygja, grafa og endurraða. Gerð verkanna krefst tíma og líkamlegrar áreynslu og hvetja verk hans okkur til umhugsunar um samband okkar við umhverfið.

Bjarki Bragason (f. 1983) býr og starfar í Reykjavík. Hann rannsakar hvernig mannlegur og jarðfræðilegur tími skerast. Í nýlegum verkum sínum hefur Bjarki einblínt á stök tré og hvernig þau bera vitni um söguna sem á sér stað í og umhverfis þau.

Brynhildur Þorgeirsdóttir (f.1955) býr og starfar í Reykjavík. Í starfi sínu sem listamaður síðastliðna fjóra áratugi hefur hún vakið athygli fyrir vinnubrögð sín og óvenjulega samsetningu steinsteypu og glers.

Verk hennar hafa oft sterk tengsl við sögulega atburði og enn sterkari tengingu við náttúruna og landið. Kjarninn í verkum hennar er samband hennar við náttúruna. Út frá formlegum sjónarhóli mótar hún list sína, á sama hátt og náttúran sjálf framkallar kraftaverk sín og gerir verkum sínum kleift að verða til af sjálfu sér á sífellt óvæntan hátt.

(EE)

Elo Järv (f. 1938, d. 2018) var eistnenskur listamaður sem vann aðallega með leður. Leður er viðkvæmt efni og einkennist af því að hafa eitt sinn verið lifandi. Hún notar leður til að kalla fram efniskennd náttúrunnar og leikur sér með það hvernig ljós endurspeglast í forminu eftir það er mótað.

Guðrún Nielsen (f.1914, d. 2000) hefur vakið athygli fyrir tréskurðarverk sín sem er víða að finna bæði innanlands og utan. Kveikjan að verkum Guðrúnar voru útskornar myndir sem hún sá í Danmörku, og eftir það fór hún sjálf að prófa tæknina. Verk hennar má flokka í þrjá hópa: Útskurð í tré, steinverk úr litlum fundnum steinum sem mynda eina heild og loks verk úr rótum sem hafa verið breytt lítillega. Guðrún skapar forvitnilegan og heillandi persónulegan heim þar sem hin létta lína er allsráðandi, studd sterkum formum.

Gústav Geir Bollason (f. 1966) er listamaður og kvikmyndagerðarmaður, búsettur á Norðurlandi í litla strandþorpinu Hjalteyri þar sem hann stýrir sýningarrýminu Verksmiðjan. Hann býr til teikningar, skúlptúra, hreyfimyndir, myndbönd og kvikmyndir og sameinar oft þessa miðla í innsetningar sem kynda undir skálduðum framlengingum veruleikans.

Kärt Ojavee (f. 1982) er listamaður og hönnuður sem sameinar nýja tækni og hefðbundið handverk. Hún nálgast textíl á hugmyndafræðilegan hátt, kannar sögulega merkingu efnisins og möguleg mótunaráhrif á framtíðina.

Naufus Ramírez-Figueroa (f. 1978) fæddist í Gvatemala. Ramírez-Figueroa vinnur með teikningar, gjörninga, skúlptúra og vídeó og rannsakar skörun sögu og forms út frá sjónarhorni eigin reynslu af rótlausri staðsetningu á meðan og í kjölfar borgarastríðsins í Gvatemala 1960–96. Með því að sækja í tungumál þjóðsagna, vísindaskáldskapar og leikhúss endurgerir hann sögulega atburði og sögupersónur.

Ólöf Nordal (f. 1961) hefur í verkum sínum unnið með menningararfinn, söguna og minni þjóðarinnar á gagnrýninn og greinandi hátt. Verk hennar halda áfram að kanna þjóðsögulegar hefðir um íslenska náttúru sem og þær aðferðir vísindanna sem leitast við að varðveita og sýna náttúruna, en gera hana að viðfangsefni skáldskapar í leiðinni.

Pakui Hardware er listrænt tvíeyki stofnað af Neringa Černiauskaitė og Ugnius Gelguda. Eitt af viðfangsefnum þeirra er endurmyndunar-læknisfræði og tækni hennar. Tvíeykið setur mannslíkamann í sýndartengsl við orðræðu utan þess mannlega, hvort sem hún tengist dýrum, plöntum eða er tæknilegs eðlis einhvers staðar á milli vísindaskáldskapar og goðafræði.

Sigurður Einarsson (f.1918, d. 2007) var innblásinn af íslenskri náttúru og þeim ævintýrum og þjóðsögum sem búa í henni. Hann breytti þeim í stórkostlegt myndrænt landslag. Hann byrjaði að mála seint á ævinni eftir að hann hætti störfum hjá Mjólkurbúi Flóamanna. Þegar abstraktmálverk var að ná vinsældum á Íslandi fékk hann áhuga á myndlist og fór að fylgjast með og taka þátt í listalífinu hér á landi.

Þorgerður Ólafsdóttir er myndlistarmaður með aðsetur á Íslandi. Í verkum sínum veltir hún fyrir sér ýmsum hlutum og fyrirbærum sem eru samofin skilningi okkar á og tengslum við náttúruna þar sem hún mætir, skarast við og er túlkuð sem umhverfi mannsins.