Get ekki séð - NEÐANJARÐAR

13.10.2023

–26.11.2023

12:00

–18:00

Hér í neðanjarðarheiminum koma lög jarðarinnar í ljós. Í þessu umhverfi vex allt og dafnar og brotnar endanlega niður. Í líki moldvörpu gröfum við okkur niður í kolniðamyrkrið, teygum lykt af jörð, rotnun og brennisteinssamböndum. Hér er risavaxinn myrkur jarðkjarni, hann dregur andann hægt og fylgir sínum eigin hrynjanda; altari undirheima, skapað úr leir; málverk málað af botnleðju sem safnaðist upp eftir nýlegar náttúruhamfarir af mannavöldum. Jörðin man, en gleypir líka, meltir og eyðir loks öllum ummerkjum um allt það sem hefur nokkurn tímann verið.

Sýningin sprettur úr myrkri sem umlykur. Hún hefst á þeirri tilfinningu að heimurinn sé að molna í höndum okkar, á meðan hvassviðrið þyrlar síðustu dropunum af dreggjum hans enn lengra.Við sjáum ekki sívaxandi ógn vistfræðilegrar eyðileggingar, rétt eins og við sjáum ekki mögulegar nýjar leiðir og líf sem gæti kviknað úr rústum gamla heimsins.

Get ekki séð er skipt í fjóra kafla sem veita innsýn í rýmin og andartökin sem mannlegt auga nemur yfirleitt ekki: allt frá hafsbotni og jarðlögunum að braki fortíðar og draumum um framtíðina. Sögurnar eru sagðar frá ýmsum sjónarhornum, allt frá blendingsfuglum að bakteríum, að sjávarlífverum, ævafornu tré eða óþreytandi vindinum. Markmiðið er að velta upp ólíkum leiðum til að sjá og upplifa heiminn og fjarlægjast þannig þau sjónarhorn sem við eigum að venjast. Teygjanlegur tími leyfir okkur að ferðast langt aftur í goðsagnakennda fortíð eða ímynda okkur ókomna framtíð.

Aaloe-Ader-Flo-Künnap-Soosalu er hópur eistneskra listamanna, arkitekta og borgarskipulagsfræðinga sem eiga fulltrúa á Sequences með verki sínu O. Verkið var fyrst skapað fyrir LIFT11 – hátíð um innsetningar í borgarrými í Tallinn, Eistlandi.

Anna Líndal (f. 1957) býr og starfar í Reykjavík. Verk hennar beinast að spurningum um hvernig árekstrar mannlegs og jarðfræðilegs tímakvarða birtast í hlutum og umhverfi. Listamaðurinn hefur tekið þátt í tveimur rannsóknarleiðöngrum til  Surtseyjar. Verkin byggja á rannsóknum teymis vísindamanna innan SUSTAIN borverkefnisins í Surtsey árið 2017.

Daiga Grantina (f. 1985) er listamaður fædd í Lettlandi og býr og starfar í París. Hún býr til stórfelldar skúlptúrsamsetningar sem líkjast náttúrunni, oft sem vistgarður og gróður. Innsetningar hennar eru unnar í gerviefni og innihalda andstæða en líkamlega eiginleika: mjúkt og hart, gegnsætt og ógegnsætt, hreyfanlegt og kyrrstætt, sterkt og veikt.

Gerður Helgadóttir (f. 1928, d. 1975) var frumkvöðull í abstrakt-skúlptúrlist á Íslandi og vann verk úr járni, bronsi, leir, steinsteypu, steindu gleri og mósaík. Hún var fyrsti íslenski listamaðurinn til að læra í Flórens árið 1947 við höggmyndadeild Accademia di Belle Arti og síðan í París við Académie de la Grande Chaumière.

Jóhannes Sveinsson Kjarval (f. 1885, d. 1972) var einn af frumkvöðlum íslenskrar myndlistar á tuttugustu öldinni og er einn ástsælasti listamaður landsins. Tengsl hans og túlkun á náttúru landsins er talin hafa endurnært áhuga þjóðarinnar og ánægju af henni. Myndefni Kjarvals má skipta í þrjá meginflokka: landslagsmyndir, andlitsmyndir og fantasíur. Þessir flokkar skarast þó oft og gjarnan má finna eiginleika þeirra allra í sömu mynd.

(FI)

Jussi Kivi (f. 1959) er finnskur listamaður sem býr og starfar í Helsinki. Undanfarna tvo áratugi hafa verk Kivi snúist um rannsókn hans á auðum, afskekktum og oft vanræktum neðanjarðarstöðum bæði í Finnlandi og öðrum löndum. Hann vinnur aðallega með ljósmyndir, teikningar og innsetningar.

Kadri Liis Rääk (f.1990) vinnur þverfaglega og sameinar aðferðir leikmynda- og upplifunarhönnunar og leggur áherslu á að skapa yfirgripsmikla, fjölþætta upplifun. Verk hennar leika sér með erkitýpískar og táknrænar frásagnir, snerta flækjur og samræður ólíkra lífsforma í vistfræðilegum bræðslupotti, sem eru soðin saman úr mismunandi jarðlögum.

Katya Buchatska (f. 1987) er listamaður sem býr og starfar í Kyiv. Buchatska vinnur við ýmsa miðla, svo sem málverk, innsetningu, skúlptúr, ljósmyndun og vídeó. Verk hennar fjalla um tengingar manna á milli og annarra vera, leifar fornaldar, varnarleysi líkamans gagnvart ofbeldi og möguleikana sem verða til við breytt sjónarhorn.

Monika Czyżyk (f. 1989) býr og starfar í Helsinki. Hún vinnur fyrst og fremst með hreyfimyndir, þá sérstaklega í tengslum við tilraunaheimildarmyndir og að verkefnum sem tengjast félagslegri tengingu. Heildarverk hennar heldur áfram að auka við ólík form af tækni-háleitri fagurfræði sem rannsaka mennsk og ómennsk mengi, hljóðrænar truflanir, óhugsandi landslag og óskiljanlega sannleika.

Valgerður Briem (f.1914, d. 2002) naut mikillar virðingar fyrir kennsluhætti sína. Hún var frumkvöðull í sínu fagi og lagði sterka áherslu á að nemendur sínir hefðu skynjun og tjáningu í fyrirrúmi við gerð verka sinna. Í list sinni vann hún aðallega við teikningu. Hún bjó til stóra klasa af blekskissum þar sem hún vann með ýmis þemu. Verkin voru að mestu óþekkt á meðan hún lifði.

Zenta Logina (f.1908, d. 1983) var frumkvöðull lettneskrar abstrakthyggju sem starfaði á ýmsum sviðum: málverki, textíllist og skúlptúr. Listaverk Zenta Logina eru talin vera „gullkista lettneskrar non-conformist art”.