Kortlagning landnáms örvera neðanjarðar er innblásið af löngun til að kanna umhverfi okkar og eiga í samskiptum við aðrar verur sem við deilum jörðinni með, sterkri löngun til að skilja áður ókunna hluti. Í þessu tilfelli er um að ræða samfélag örvera sem numið hafa land neðanjarðar í Surtsey, eyju í Norður-Atlantshafi sem myndaðist við eldgos í sjó árið 1963. Myndir sem sýna
örverurnar í lítilli holu í berginu voru teknar með rafeindasmásjá af sýni úr borkjarna. Örverurnar birtast hér sem þrívíddarskúlptúr og prentverk. Að stækka 50.000 sinnum örlitla örveruþyrpingu neðanjarðar er leið til að framkalla annars ósýnilegt fyrirbæri. Útsaumað kort sýnir þverskurð af Surtsey. Þar kemur meðal annars fram borholan SE-02a, þar sem örveruþyrpingin fannst.
Anna Líndal (f. 1957) býr og starfar í Reykjavík. Verk hennar beinast að spurningum um hvernig árekstrar mannlegs og jarðfræðilegs tímakvarða birtast í hlutum og umhverfi. Listamaðurinn hefur tekið þátt í tveimur rannsóknarleiðöngrum til Surtseyjar. Verkin byggja á rannsóknum teymis vísindamanna innan SUSTAIN borverkefnisins í Surtsey árið 2017.