Get ekki séð - VATN

14.10.2023

–26.11.2023

10:00

–17:00

Djúpsævið umlykur eyjuna og vatnsósa mýrin umlykur sýningarstaðinn. Stórbrotnar öldurnar og endalaust hyldýpið kalla fram sýnir af goðsagnakenndum verum sem líða um í yfirgefnum innviðum, afurð löngu gleymdra tíma.Vatnið nálgast ströndina, með lög af tíma og rústir fortíðar í farteskinu. Kæfandi myrkrið á hafsbotni geymir ótalmörg leyndarmál og goðsögur greina frá sjávarferlíkjum skelfilegum ásýndum, skyldu þau vakna af eilífum svefni. Á ferð um mýrlendið eru raddir sem aldrei hafa fengið að heyrast með í för.

Sýningin sprettur úr myrkri sem umlykur. Hún hefst á þeirri tilfinningu að heimurinn sé að molna í höndum okkar, á meðan hvassviðrið þyrlar síðustu dropunum af dreggjum hans enn lengra.Við sjáum ekki sívaxandi ógn vistfræðilegrar eyðileggingar, rétt eins og við sjáum ekki mögulegar nýjar leiðir og líf sem gæti kviknað úr rústum gamla heimsins.

Get ekki séð er skipt í fjóra kafla sem veita innsýn í rýmin og andartökin sem mannlegt auga nemur yfirleitt ekki: allt frá hafsbotni og jarðlögunum að braki fortíðar og draumum um framtíðina. Sögurnar eru sagðar frá ýmsum sjónarhornum, allt frá blendingsfuglum að bakteríum, að sjávarlífverum, ævafornu tré eða óþreytandi vindinum. Markmiðið er að velta upp ólíkum leiðum til að sjá og upplifa heiminn og fjarlægjast þannig þau sjónarhorn sem við eigum að venjast. Teygjanlegur tími leyfir okkur að ferðast langt aftur í goðsagnakennda fortíð eða ímynda okkur ókomna framtíð.

Anna Niskanen (f. 1990) er finnskur listamaður sem býr og starfar í Helsinki. Hún vinnur með óhefðbundnar ljósmynda- og prentaðferðir og skapar oftast stórar innsetningar með handprentuðum verkum. Rauður þráður í verkum hennar er minningin um stað og náttúru.

Edith Karlson (b. 1983) er skúlptúristi sem býr og starfar í Tallinn. Meginviðfangsefni listar hennar er mannfólk og dýr. Hundar, birnir, ljón, fuglar og annarskonar dýr koma fram bæði allegórískt eða á táknrænan máta.

Emilija Škarnulytė (f. 1987) skoðar hluti út frá sjónarhorni framtíðarfornleifafræðings. Nýleg verk sýna ímyndun á framtíðinni í tengslum við áhrif mannkynsins á jörðina mörg ár inn í framtíðina. Škarnulytė vinnur með innsetningar og kvikmyndaformið þvert á heimildir og skáldskap.

Guðrún Vera Hjartardóttir (f. 1966) er íslenskur listamaður sem fæst aðallega við skúlptúr og innsetningar. Hún vinnur á mörkum hins ímyndaða og raunverulega.

Gústav Geir Bollason (f. 1966) er listamaður og kvikmyndagerðarmaður, búsettur á Norðurlandi í litla strandþorpinu Hjalteyri þar sem hann stýrir sýningarrýminu Verksmiðjan. Hann býr til teikningar, skúlptúra, hreyfimyndir, myndbönd og kvikmyndir og sameinar oft þessa miðla í innsetningar sem kynda undir skálduðum framlengingum veruleikans.

Katja Novitskova (f. 1984) er eistneskur listamaður búsett í Berlín. Verk hennar varpa fram spurningum um það hvernig hin tæknivædda framtíð muni verða. Novitskova staðsetur sig mitt á milli sjónlistar og vísindaskáldskapar.