Ræktin býður upp á listasmiðju fyrir fullorðna þar sem hlúð er að innsæinu gegn um teikningu og upplestur. Listasmiðjan er haldin í tengslum við útgáfu Hlustar, málgagns Ræktarinnar um innsæi í samtímalist.
Skráning á viðburðinn fer fram:
https://forms.gle/GwyVGcQgNa4g33cx7
Hlust er samansafn texta, viðtala og listaverka um innsæi í samtímalist. Á sýningartíma Sequences X er Hlust að finna víðsvegar um borgina og í grennd við sýningarstaði. Í Flæði dvelur Ráðrúm, innsetning Ræktarinnar, þar sem málstofa og listasmiðjur tengd viðfangsefninu verða haldin. Saman mynda Hlustin, Ráðrúmið og viðburðirnir mengi nálgana að samtali um innsæi sem áhorfandanum er velkomið að taka þátt í.
Aðgengi:
Rampi verður komið fyrir við inngang á meðan á viðburði stendur en baðherbergi er óaðgengilegt. Boðið verður upp á sæti.
Agnes Ársælsdóttir (f. 1996) vinnur með róttæka væntumþykju í verkum sínum sem kanna samband mannsins við umhverfi sitt og aðrar tegundir. Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2018 og seinna það ár fór hún í starfsnám til listamannsins Géralds Kurdian í París. Í sumar vann Agnes að útvarpsinnslögunum Samlíf ásamt Sylvíu Dröfn Jónsdóttur sem spiluð voru á Rás 1. Verkefnið var styrkt af Hönnunarsjóði Íslands.
Bára Bjarnadóttir (f. 1991) býr og starfar í Reykjavík. Vinnuferli Báru er kræklótt og persónulegt, þar sem einkalíf, tilraunamennska, fræði og poppmenning skiptast á að stýra för. Fræði um samskipti trjáa eru tengd við samskipti við móður sem nýverið keypti sér óbyggt sumarbústaðarland, samtal mæðgna kalla á fermingargræjur, unglingsárin kalla á sérstaka límmiða til að skreyta græjurnar með, o.s.frv. Ferlið er að lokum soðið niður í verk á borð við límmiðainnsetningu eða ostrusveppagæludýr.
Ræktin (st. 2020) er samsteypa listamanna sem leitast eftir að búa til samtal um ýmislegt sem vekur forvitni þeirra í list samtímans. Ræktin tekur sér góðan tíma til að hlúa að því viðfangsefni sem hún tekur sér fyrir hverju sinni, með von um að ný sjónarhorn komi í ljós þegar unnið er á notalegum hraða. Ræktin kemur því sem hún hefur numið til skila til jafns með rödd sinni og fingrum. Hópurinn samanstendur af Agnesi Ársæls, Báru Bjarnadóttur, Svanhildi Höllu Haraldsdóttur og Völu Sigþrúðar Jónsdóttur.
„Ég held að þetta geti verið forvitnileg leið til að skoða tíðaranda á ólíkan hátt. Eitt af því sem við erum að endurspegla í listinni okkar þegar við erum að spá í ytra umhverfi er tíðarandi, en ef við erum ekki viljandi að endurspegla hann í einhverri fagurfræði kemur kannski einhver annar sannleikur um samtímann, annar en sá sem liggur í augum uppi.“
Svanhildur Halla Haraldsdóttir (f. 1992) býr og vinnur í Reykjavík. List hennar snýr að mestu að sögum og í verkum sínum leitast hún við að vefa þær saman við rýmið, tvinna saman minningar og leika sér með skynræna upplifun. Innsetningar og þátttökuverk hennar opna ólíkar gáttir þar sem mörk milli ímyndunar og veruleika fjara út. Verkin verða einskonar inngrip sem snúa að upplifun af rýminu, hvernig ferðast er um rýmið og hvar staldrað er við, en þátttaka áhorfandans verður einnig lykill að þróun og mótun verka.
Vala Sigþrúðar Jónsdóttir (f. 1993) býr og vinnur í Reykjavík. Í list sinni veltir hún fyrir sér hvað telst náttúrulegt, og hvort manngerð tækni hafi á einhvern hátt tök á að gera því sem við köllum náttúru skil í máli og myndum. Vala sækist einnig eftir því að kanna tengsl og mörk á milli handverks, tækni og þess lífræna, því að hún hefur á tilfinningunni að slíkar vangaveltur gefi möguleika á að búa til ný og vænlegri tengsl manns og náttúru.