Ræktin

(IS)

Ræktin (st. 2020) er samsteypa listamanna sem leitast eftir að búa til samtal um ýmislegt sem vekur forvitni þeirra í list samtímans. Ræktin tekur sér góðan tíma til að hlúa að því viðfangsefni sem hún tekur sér fyrir hverju sinni, með von um að ný sjónarhorn komi í ljós þegar unnið er á notalegum hraða. Ræktin kemur því sem hún hefur numið til skila til jafns með rödd sinni og fingrum. Hópurinn samanstendur af Agnesi Ársæls, Báru Bjarnadóttur, Svanhildi Höllu Haraldsdóttur og Völu Sigþrúðar Jónsdóttur.

„Ég held að þetta geti verið forvitnileg leið til að skoða tíðaranda á ólíkan hátt. Eitt af því sem við erum að endurspegla í listinni okkar þegar við erum að spá í ytra umhverfi er tíðarandi, en ef við erum ekki viljandi að endurspegla hann í einhverri fagurfræði kemur kannski einhver annar sannleikur um samtímann, annar en sá sem liggur í augum uppi.“

Hlust, málgagn Ræktarinnar, er samansafn texta, viðtala og listaverka um innsæi í samtímalist. Á sýningartíma Sequences X er Hlust að finna víðsvegar um borgina og í grennd við sýningarstaði. Í Flæði dvelur Ráðrúm, innsetning Ræktarinnar, þar sem listasmiðjur og málstofa tengd viðfangsefninu verða haldin. Saman mynda Hlustin, Ráðrúmið og viðburðirnir mengi nálgana að samtali um innsæi sem áhorfandanum er velkomið að taka þátt í.

Boðið verður upp á tvær listasmiðjur, eina fyrir börn á aldrinum 4-8 ára og eina fyrir fullorðna. Í smiðjunum er þátttakendum boðið inn í vinnudag Ræktarinnar, þar sem teikning nýtist sem bæði leikur og samskiptaleið. Í bæði barna- og fullorðinssmiðju munu þátttakendur móta innsetninguna Ráðrúm varanlega. Í Ráðrúmi verður einnig haldin málstofa um innsæi þar sem Ræktin fær listamenn inn í opið samtal um viðfangsefnið.

Associated events: