Get ekki séð - FRUMSPEKIVÍDDIN

15.10.2023

–26.11.2023

10:00

–17:00

Gangið inn í frumspekivíddina, heim þar sem línuleg og rökrétt sannindi eru dregin í efa. Leitin að nýjum formum og listræn landkönnun birtist í formi snúinnar rúmfræði, flæktra hnatta og dáleiðandi spírala. Hér byrjum við að má út mörk ímyndunar og veruleika, óvissu og vitneskju, til að vefa saman viðtekinn skilning á nauðsyn og möguleikum. Hugurinn verður að að skipta um gír, bæði á einstaklings- og samfélagsskala til þess að til verði pláss fyrir hið nýja – sem gæti allt eins verið löngu gleymdur sannleikur.

Sýningin sprettur úr myrkri sem umlykur. Hún hefst á þeirri tilfinningu að heimurinn sé að molna í höndum okkar, á meðan hvassviðrið þyrlar síðustu dropunum af dreggjum hans enn lengra.Við sjáum ekki sívaxandi ógn vistfræðilegrar eyðileggingar, rétt eins og við sjáum ekki mögulegar nýjar leiðir og líf sem gæti kviknað úr rústum gamla heimsins.

Get ekki séð er skipt í fjóra kafla sem veita innsýn í rýmin og andartökin sem mannlegt auga nemur yfirleitt ekki: allt frá hafsbotni og jarðlögunum að braki fortíðar og draumum um framtíðina. Sögurnar eru sagðar frá ýmsum sjónarhornum, allt frá blendingsfuglum að bakteríum, að sjávarlífverum, ævafornu tré eða óþreytandi vindinum. Markmiðið er að velta upp ólíkum leiðum til að sjá og upplifa heiminn og fjarlægjast þannig þau sjónarhorn sem við eigum að venjast. Teygjanlegur tími leyfir okkur að ferðast langt aftur í goðsagnakennda fortíð eða ímynda okkur ókomna framtíð.

Agnes Denes (f. 1931) er ungverskur listamaður sem býr og starfar í New York. Í síbreytilegri listsköpun sinni sem hófst á sjöunda áratug seinustu aldar, hefur hún stuðst við heimspeki, stærðfræði, málfræði, sálfræði, sagnfræði, félagsfræði, ljóðlist og tónlist. Hún fléttar saman list og vísindum svo úr verður óljós ráðgáta þekkingar.

Daria Melnikova (f. 1984) býr og starfar í Riga. Hún trúir því að með því að læra eitthvað nýtt geti hún víkkað sjóndeildarhringinn. Verk hennar spretta úr hugleiðandi rannsókn á hversdagslegum rútínum, klisjum, arkítektúr og augnablikum – Daria gerir tilraunir til að endurbyggja innri rökfræði þeirra.

(EE)

Elo Järv (f. 1938, d. 2018) var eistnenskur listamaður sem vann aðallega með leður. Leður er viðkvæmt efni og einkennist af því að hafa eitt sinn verið lifandi. Hún notar leður til að kalla fram efniskennd náttúrunnar og leikur sér með það hvernig ljós endurspeglast í forminu eftir það er mótað.

Gerður Helgadóttir (f. 1928, d. 1975) var frumkvöðull í abstrakt-skúlptúrlist á Íslandi og vann verk úr járni, bronsi, leir, steinsteypu, steindu gleri og mósaík. Hún var fyrsti íslenski listamaðurinn til að læra í Flórens árið 1947 við höggmyndadeild Accademia di Belle Arti og síðan í París við Académie de la Grande Chaumière.

Ólöf Nordal (f. 1961) hefur í verkum sínum unnið með menningararfinn, söguna og minni þjóðarinnar á gagnrýninn og greinandi hátt. Verk hennar halda áfram að kanna þjóðsögulegar hefðir um íslenska náttúru sem og þær aðferðir vísindanna sem leitast við að varðveita og sýna náttúruna, en gera hana að viðfangsefni skáldskapar í leiðinni.

Zenta Logina (f.1908, d. 1983) var frumkvöðull lettneskrar abstrakthyggju sem starfaði á ýmsum sviðum: málverki, textíllist og skúlptúr. Listaverk Zenta Logina eru talin vera „gullkista lettneskrar non-conformist art”.