SEQUENCES IXÍ ALVÖRU

11-20.OKTÓBER 2019INNGANGUR
-  HEIÐURSLISTAMAÐUR
-  LISTAMENN
-  TEXTAR
-  SÝNINGARSTAÐIR
-  DAGSKRÁ
-  UTANDAGSKRÁ
-  FRÉTTIR
-  UM SEQUENCES 
-  ARKÍF
LAUS STÖRFENGLISHSequences real time art festival er listamannarekin myndlistarhátíð sem haldin er annað hvert ár í Reykjavík.  Frá upphafi hefur verið lagt upp með að þar ríki andi frumkvæðis, tilrauna og áræðni. Stofnaðilar og ábyrgðaraðilar Sequences eru Kling & Bang (st. 2003), Nýlistasafnið (st. 1978) og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Sequences er rekin án hagnaðarsjónarmiða.


SEQUENCES
c/o Kynningarmiðstöð
íslenskrar myndlistar

Gimli, Lækjargötu 3
101 Reykjavík


00354 5627262
sequences@sequences.is ︎

Mark


INNGANGUR
Ingólfur Arnarsson


INNGANGUR
Hildigunnur BirgisdóttirÞegar stjórn Sequences hafði samband og bauð okkur að stjórna næstu Sequences-hátíð vorum við bæði hrærð og hissa og þurftum að taka okkur smá umhugsunarfrest. Við höfum átt gott samstarf í kennslu og höfum bæði vasast í ýmsu listtengdu eins og algengt er með listamenn á Íslandia). Eftir umhugsun komumst við að þeirri niðurstöðu að við þyrftum að nálgast verkið sem myndlistarmenn. Það er, við ræðum um myndlistarverk sem efnislegan hlut, ekki einungis sem hugmynd. Við gátum ekki einskorðað okkur við rauntímalist eða tímatengda miðla sem er jú upphaflegur ásetningur hátíðarinnar. Áhuga- og þekkingarsvið okkar er vítt og brotakennt en ekki sértækt á því sviði. Við völdum þá leið að kljúfa hugtakið raun-tíma og kanna afstæði þessara tveggja hugtaka með virkni verka sem unnin eru í hina ólíkustu miðla. Við hefjum samtal við sýningagesti með vali á þeim verkum og viðfangsefnum sem hér er stefnt saman og víxlverkun og margvíslegri tengingu merkingarsviða þeirra.

Ein spurningin sem kom upp snerist um hvaða spennandi verk við gætum kynnt fyrir íslensku listáhugafólki, eitthvað sem hefði ekki ratað hingað. Eitt það fyrsta sem kom upp í samræðum okkar var röð málverka, Gular kvikmyndir (Yellow Movies) eftir Tony Conrad, verk sem annað okkar hafði séð á Feneyjatvíæringnum 2009 og hitt hrifist af úr fjarlægð en ekki séð. Við vorum sammála um að hér væri verk sem flott væri að fá og byggi yfir þeim eiginleikum sem sýn okkar fyrir hátíðina næði til. Um er að ræða verk sem listamaðurinn gerði á áttunda áratugnum. Verkin eru einlitur flötur, afmarkaður með svörtum ramma, sem minnir á kvikmyndatjöld. Þau eru gerð með endingarlítilli húsamálningu á pappír. Verkin eru í hæggengu hrörnunarástandi og gulna með tímanum, þau fela í sér vangaveltur um tímann sem við dveljum í. Af praktískum ástæðum, sem ekki verður farið út í, reyndist því miður ekki raunhæft að flytja inn eitt slíkt verk.b) En á einhvern hátt er þetta enn í huga okkar lykilverk fyrir sýninguna, þrátt fyrir fjarveru þess þar sem það liggur í kassa eða hangir á vegg, einhvers staðar úti í heimi.

Hátíðin er í nokkrum flokkum. Þungamiðjan verður í Marshallhúsinu. Sýning a) í Kling & Bang og sýning b) í Nýlistasafninu auk opnunarverks og sýningar á teikningum heiðurslistamanns í veitingahúsinu á jarðhæð. Sýningarnar a) og b) eru um margt ólíkar en eiga í samtali hvor við aðra. Á hvern hátt verður ekki tíundað hér heldur er gestum boðið upp á það verkefni. Listamennirnir eru af mismunandi þjóðerni og ólíkir.c) Sumir er látnir og aðrir starfandi. Þeir eru á ólíkum aldri og með fjölbreyttan bakgrunn. Sum verkin eru sérstaklega gerð fyrir tilefnið en önnur eru eldri verk sem eru fengin að láni. Í tilfelli sumra listamannanna sáum við fyrir okkur að minni einkasýningar hentuðu betur, sýningar sem jafnvel mætti flokka mitt á milli a) og b). Verk þeirra má sjá í Open, Græna herberginu í Hafnarhúsi og í Harbinger. Í Bíó Paradís er boðið upp á verk unnin í tímatengdan miðil, kvikmyndina og höfum við valið til sýninga verk þar sem unnið er á skapandi hátt með miðilinn og sem falla vel að okkar sýn fyrir hátíðina. Í Fríkirkjunni verða síðan tónleikar þar sem víðkunnur tónlistamaður endurnýtir tóna fortíðar við gerð nýrra verka.

Venja hefur verið að velja heiðurslistamann fyrir hátíðina. Að þessu sinni er það Kristinn Guðbrandur Harðarson, listamaður sem nýtur virðingar kollega af eigin kynslóð en er þó fyrir mörgum hálfgerður huldumaður.d) Kristinn hefur verið virkur í íslensku myndlistarlífi um áratugaskeið. Í verkum Kristins á sér stað persónuleg og ljóðræn úrvinnsla á hans nánasta umhverfi þar sem hann notast við fjölbreyttar miðlunarleiðir, texta, útsaum, skúlptúra, veggmálverk, teiknimyndir og gjörninga svo fátt eitt sé nefnt. Kristinn mun halda einkasýningu í Ásmundarsal, gefa út bókverk sem verður í leiðinni sjálfstætt sýningarými og sýnishorn eldri verka hans munu einnig vera til sýnis í Marshallhúsinu. Þetta samstarfsverkefni okkar er afrakstur listrænna skoðanaskipta og unnið í samvinnu við frábært fólk tengt þessum listamannareknu rýmum. Við höfum valið fjóra ólíka einstaklinga til að leggja orð í belg og bregðast á ólíkan hátt við grunnhugmynd okkar. Sýningagestir bæta síðan við sinni sýn og upplifun. Þetta er opinn tilgátu viðburður um tíma okkar og stað í tilverunni.
a)
Við Ingólfur höfum átt mörg samtöl um listaverk. Í hefðbundnum pásum á kaffistofu myndlistarkennarans höfum við lagt drög að næstu verkefnum nemenda milli þess sem við skiptumst á skoðunum um listina. Sérstaða þessarar tilteknu kaffistofu er sú að hún er stödd á eyju úr alfaraleið. Þannig var það að við fórum að ræða mikilvægi þess að sjá verk í eigin persónu, einkum þá hvaða verk við vildum helst fá að upplifa (í rauntíma). Hugur minn leitaði þá ósjálfrátt að verki sem hafði eftirminnilega sterk líkamleg áhrif á mig í rauntíma. Ég sé fyrir mér hvernig ég hlammaðist á rófubeinið í uppnámi yfir því að vera í návist ,,tímans“ á Feneyjatvíæringnum 2009. Ingólfur minnist þá í sömu andrá á Tony nokkurn Conrad, ég fletti nafninu samstundis upp því það hringir einhverjum bjöllum. Viti menn, hann er að tala um þessi sömu verk. Þarna er komin grunnforsenda þess að við Ingólfur sögðum já við höfðinglegu boði stjórnar um að stýra rauntíma hátíðinni Sequences.
b)
Ég man þegar að Sequences-hátíðin var stofnuð, að þá voru áherslur hennar m.a. til höfuðs flutningsgjöldum, þ.e. að hluta til þótti hagnýtt að einblína á tímatengda miðla og lágmarka þannig flutningsgjöld efnislegra verka til og frá eyju á miðju Atlantshafi. Við Ingólfur höfum eilítið snúið upp á þessar áherslur, við flytjum inn og sýnum talsvert af efnislegum verkum og leyfum okkur að fullyrða að flest verk séu raun-tíma verk, líkt og kvikmyndir Conrads undirstrika, þá eru allir hlutir í raun atburðir (mislangdregnir þó).
c)
Við lögðum okkur fram um að velja fjölbreyttan hóp listamanna á þessa sýningu, eins konar þverskurð samfélagsins: Ein hjón, nokkra nemendur og kennara, vini og kunningja, lifandi og liðna, lengra komna og nýgræðinga. En líkt og með flesta þverskurði sýnir hann einungis þau lög (samfélagsins) sem umlykja þennan tiltekna skurð. Þannig er tilfinnanleg vöntun á fulltrúum utan norðvesturhluta jarðar, það þyrfti að taka mun fleiri skurði. Þessi skekkja er algörlega óþolandi.
d)
Eftir útskrift frá Listaháskóla Íslands hóf ég að kenna við Myndlistaskólann í Reykjavík. Þar kynntist ég Kristni sem einstaklega rólegum samkennara. Hann sló mig sem mótsögn við það sem mér hafði verið sagt um myndlista-menn. Hann var jarðbundinn og rólegur, í ósköp venjulegum fötum. Að fylgjast með honum kenna þandi hjá mér listhugtakið og hvar mörkin milli lífs og listar liggja. Virðing Kristins fyrir nemendum sínum og afslöppuð afstaða með fjölbreytileika mannsins hafði mikil áhrif á mig. Þessa afstöðu sýnir hann í verki á meðal nemenda en einnig í list sinni. Hann staðsetur sig ekki utan mannlegs samfélags, með sjónarhorn þess sérstaka, heldur í því miðju, nokkurs konar magaspeglun þjóðar.....[og svo eitthvað um hundinn hans og hógværðina].


Mark