Í alvöru? - vinnustofa

15.10.2024

Listamenn sem taka þátt í Sequences myndlistarhátíðinni með ólíkum hætti, munu leiða vinnustofur í Gryfjunni. Vinnustofurnar Í alvöru? eru einskonar framlenging hugmyndanna sem sýningarstjórar Sequences IX vinna með, og þeirra ólíku verka sem listamennirnir á hátíðinni leggja fram.

Takmarkaður fjöldi kemst að í hverja vinnustofu. Vinsamlegast sendið skráningu á asmundarsalur@asmundarsalur.is.

Laugardagur 19. október
14.00 Kristján Leósson, sérsvið: eðlisfræði
Af hverju tíminn er ekki allur þar sem hann er séður – Um tilvist tíma –  / – umfang nútíðar –
Í vinnustofunni ræðir Kristján við þátttakendur um það af hverju tíminn er ekki allur þar sem hann er séður. Í texta sínum fyrir Sequences skrifar Kristján: „Hugtökin „raun“ og „tími“ eru hvort um sig nauðsynleg blekking – tilbúinn veruleiki sem fellur um sjálfan sig við alla nánari skoðun en er samt svo óþægilega fast rótaður í tengslum okkar við umhverfið, við okkur sjálf og við hvort annað.”
Kjörhópur 15 ára og eldri, áhugasamir um tímann og tilveruna

Laugardagur 26. október
14.00 Þóranna Dögg Björnsdóttir, sérsvið: tónlist og myndlist Hljóðnostur
Þátttakendur fá tækifæri til að prófa ýmis konar hljóðgjafa, leggja við hlustir og rýna í hljóðin. Ólíkar leiðir til að túlka hljóð í efni og texta verða prófaðar, með því að draga fram myndir sem spretta fram við skynjun hljóðs og jafnvel við að framkalla minningar um hljóð.
Kjörhópur: áhugasamir um hljóð, 10. bekkur og eldri

Sunnudagur 27. október
14.00 Karlotta Blöndal, sérsvið: myndlist
Haust, hringrás og náttúra.
Haustlaufin rata inn í Ásmundarsal og töfrar þeirra verða skoðaðir. Þátttakendur í samvinnu við kennara gera tvær jafnvígar tilraunir í að finna muninn á því að teikna það sem maður heldur að sé og það sem er. Haustlaufin verða skoðuð; litir, form, áferð, stærð og margbreytileiki.
Kjörhópur 4-44 ára, áhugasamir um töfra og teikningu