Elísabet K. Jökulsdóttir

(IS)

Heiðurslistamaður Sequences X – Kominn tími til er Elísabet Kristín Jökulsdóttir. Elísabet hefur þá hæfileika að geta spunnið þræði á milli ólíkra listforma og notar rödd sína til þess að segja hlutina hispurslaust, en jafnframt minnir okkur á töfrana.

Elísabet býr yfir tungumáli gyðjunnar og birtist okkur í ólíkum myndum; skapar og eyðir til skiptis, er utan og innan við og leikur sér að því að dansa á línunni þar á milli. Í verkum sínum er Elísabet greinandi á eigið sjálf og þjóðarinnar og tekst á við hið útópíska hlutverk listarinnar sem hreyfandi afli í samfélaginu. Liggur styrkur hennar í því lifandi og margbreytilega sambandi sem hún á við áhorfendur og áheyrendur sína, þar sem hún sjálf er sem almenningslistaverk sem stöðugt hreyfir við hugmyndum samfélagsins og hreyfir þannig við tímanum og tekur þátt í hinni eilífu endursköpun heimsins.

„Það er yfirleitt ekki tekið fram í sköpunarsögum trúarbragðanna að verið sé að skapa heim í fyrsta sinn. […] En á meðan annað er ekki tekið fram má hugsa sér að verið sé að skapa heiminn uppá nýtt en ekki nýjan heim. Kannski var heimurinn búinn að skapast og eyðast svo oft að það þótti við hæfi að skrifa það niður, og þá tók því ekki að segja: Í hundraðasta sinn var tóm…“  Elísabet Kristín Jökulsdóttir

Associated events: