Edda Kristín Sigurjónsdóttir (f. 1978) býr og starfar í Reykjavík. Verk hennar, eða líf þar sem hvort er órjúfanlegt hinu, snýst um að finna hægt og rólega leiðina heim til hjartans – að heiðra það sem er hér og nú. Matur sem efniviður, töfrandi heimur plönturíkisins og trú á mátt þess að óska sér eru henni hugleikin og samofin ólíkum verkefnum hennar.
Edda Kristín stundar garðyrkjumenntun í lífrænni ræktun. Hún er með MA í samspilshönnun frá Háskólanum í Malmö og hefur síðan 2010 starfað á sviði hönnunar og myndlistar, verkefnastjórnunar, leikstjórnar og framleiðslu innan- og utanlands hjá Miðstöð hönnunar- og arkitektúrs, Listamiðstöð Íslands, Nýlistasafni, Listaháskóla Íslands og Sequences listahátíð.
Hvað hugsar fræ þegar það teygir einn anga í átt að miðju jarðar og annan í átt að sólu? Í kjöraðstæðum beinir það orku sinni að jafnvæginu milli þessara átta svo það megi vaxa og dafna. Eins og fyrir töfra. En allt gæti eins farið á síðri veg.