Þóranna Dögg Björnsdóttir og Þráinn Hjálmarsson eru sýningarstjórar Sequences X

Artist Þóranna Dögg Björnsdóttir and composer Þráinn Hjálmarsson, the curators of Sequences X. Photo: Rainy

Sequences verður haldinn í tíunda sinn í október 2021. Hátíðin er afsprengi sköpunarkraftsins sem kraumar hér á landi og hefur nú fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur fyrir þróun myndlistar á Íslandi. Hverju sinni er teflt fram kröftugum og framsæknum sýningarstjórum en sýningastjórar hátíðarinnar að þessu sinni eru Þóranna Dögg Björnsdóttir, listakona og Þráinn Hjálmarsson, tónskáld.

Undirtitill Sequences, real time art festival, vísar til upphaflegu áherslu hátíðarinnar á tímatengda miðla og verk sem unnin eru í rauntíma. „Hátíðin í ár beinir sjónum sínum að manngerðum tímavísum í umhverfi okkar. Til dæmis hvernig „lesa“ megi tíðarandann í almennum athöfnum okkar og af ráðandi hugmyndum í samfélaginu hverju sinni. Samfélagslegar hugmyndir og hugarfar eru síkvik líkt og samfélögin sjálf. Flæði tímans markast af endurnýjun og breytingu þessara hugmynda. Það að skapa hreyfingu á hugmyndir í samfélaginu hreyfir við tímanum.“ segir Þráinn Hjálmarsson, annar sýningarstjóri Sequences X.

Hryggjarstykki hátíðarinnar verður fjölbreytt, þverfagleg sýningar- og viðburðardagskrá með verkum eftir 27 íslenska og erlenda listamenn með ólíkan bakgrunn; danshöfunda, skáld, tónskáld, hönnuði og myndlistarmenn. Þá mun hátíðin teygja anga sína víða um borgina; Marshallhúsið úti á Granda, sem hýsir bæði Nýlistasafnið og Kling & Bang, Open, Flæði, Bíó Paradís og Ásmundarsal.

Heiðurslistamaður hátíðarinnar verður Elísabet Jökulsdóttir (f. 1958) ljóðskáld og rithöfundur en hún á að baki langan og einstakan feril í íslensku menningarlífi. „Verk Elísabetar eru sem barómeter á samfélagið hverju sinni. Elísabet er síkvik og örlát í umfjöllun sinni um mennskuna og með gjörningum sínum og orðlist spinnur hún þræði milli ólíkra listforma. Hún hefur rutt brautina í umræðu um geðheilbrigði og með frásögnum sínum og samtali við samfélagið gefur hún okkur tækifæri til að stækka sálina og spegla okkur í litrófi sammannlegra tilfinninga. Hún er alltaf að minna okkur á töfrana” segir Þóranna Dögg Björnsdóttir annar sýningarstjóri Sequences X.

Heiðurlistamenn fyrri hátíða eru Kristinn G. Harðarson (2019), Joan Jonas (2017), Carolee Schneemann (2015), Grétar Reynisson (2013), Hannes Lárusson (2011), Magnús Pálsson (2009) og Rúrí (2008). 

Fréttatilkynning í heild sinni má finna hér.

Related