Stjórn Sequences real time art festival leitar að sýningarstjóra eða sýningarteymi sem mun vera í forsvari fyrir næstu útgáfu hátíðarinnar, Sequences X sem haldin verður í október 2021.
Sequences real time art festival er listamannarekin myndlistarhátíð sem haldin er annað hvert ár í Reykjavík, með sérstaka áherslu á verk í rauntíma og tímatengda miðla. Frá upphafi hefur verið lagt upp með að á hátíðinni ríki andi frumkvæðis, tilrauna og áræðni. Stofnaðilar og ábyrgðaraðilar Sequences eru Kling & Bang (st. 2003), Nýlistasafnið (st. 1978) og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Sequences er rekin án hagnaðarsjónarmiða.
Við leitum að sýningarstjóra eða sýningarteymi sem getur glætt hátíðina nýju ljósi og um leið litið til sögu hátíðarinnar sem listamannarekið frumkvæði með áherslu á tímatengda miðla. Sýningarstjórinn/teymið mun hafa yfirumsjón með öllu sem kemur að skipulagningu hátíðarinnar, allt frá hugmyndaramma og þema Sequences X og vali á listamönnum til fjáröflunar, framkvæmdar og lokaskýrslugerðar. Stjórn Sequences mun vera sýningarstjóra/teyminu innan handar á meðan á ferlinu stendur.
Verkefni sem sýningarstjóri/teymið mun vinna að eru meðal annars:
- Hugmyndavinna, þema, val á listamönnum og dagskrá hátíðar
- Fjáröflun og fjármálastjórnun
- Samskipti við listamenn og aðra þátttakendur
- Ritstjórn sýningarskrár
- Skipulag við uppsetningu og niðurtöku sýninga og viðburða
- Samskipti við styrktaraðila og aðra samstarfsaðila
- Miðlun hátíðar og samskipti við fjölmiðla
- Niðurtaka og lokaskýrslur
Við leitum að aðila/um með sterka listræna sýn og reynslu af skipulagi menningarviðburða. Sequences X mun fara fram í október 2021, en nánari dagsetningar verða ákveðnar í samstarfi við þann sýningarstjóra eða það teymi sem verður fyrir valinu. Hátíðin mun spanna 10 daga (2 helgar, 5 virka daga) en sýningar hátíðarinnar geta varað lengur, í samráði við sýningarstaði. Fastir sýningarstaðir hátíðarinnar eru Kling & Bang og Nýlistasafnið, og hefð er fyrir því að hátíðin fari einnig fram í öðrum listamannareknum rýmum í Reykjavík.
Umsóknarferli
Umsókn á að innihalda greinagóða lýsingu á hugmynd (1bls), ferilskrá umsækjanda ásamt tillögu að tíma- og fjárhagsáætlun. Skjalið má ekki vera meira en 2 GB.
Umsóknir sendist sem eitt sameinað pdf skjal á sequences@sequences.is fyrir miðnætti 3. ágúst 2020. Allar fyrirspurnir sendist á sama netfang og öllum spurningum verður svarað eins fljótt og auðið er.
Stjórn Sequences fer yfir innsendar umsóknir, og öllum umsóknum verður svarað eigi síður en 3. september 2020. Fyllsta trúnaðar verður gætt og stjórn Sequences áskilur sér rétt til að leita til annarra en umsækjenda.