Sequences IX – Í alvöru

The curators, Ingólfur Arnarsson & Hildigunnur Birgisdóttir, conferring at a local hangout

Myndlistarhátíðin Sequences verður haldinn í níunda sinn dagana 11.-  20. október 2019.

Sýningastjórar hátíðarinnar eru að þessu sinni myndlistarmennirnir Ingólfur Arnarsson (f. 1956) og Hildigunnur Birgisdóttur (f. 1980) sem bæði eru virk í íslensku listalífi sem myndlistarmenn, kennarar og sýningarstjórar. Þetta er í fyrsta sinn sem þau vinna saman að verkefni af þessum toga en þau hafa á undanförnum árum kennt  í sameiningu námskeið við Myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

Sequences-hátíðin í ár mun teygja anga sína víða og verða sýningarými meðal annars Marshallhúsið á Granda, sem hýsir bæði Nýlistasafnið og Kling & Bang, Ásmundarsalur, Harbinger, Open og Bíó Paradís.

Heiðurslistamaður hátíðarinnar í ár verður Kristinn Guðbrandur Harðarson (f. 1955) sem hefur starfað ötullega í íslensku myndlistarlífi um áratuga skeið. Í verkum Kristins á sér stað persónuleg og ljóðræn úrvinnsla á hans nánasta umhverfi þar sem hann notast við fjölbreyttar miðlunarleiðir, texta, útsaum, skúlptúra, veggmálverk, teiknimyndir og gjörninga svo fátt eitt sé nefnt. Kristinn mun halda einkasýningu í Ásmundarsal og gefa út bókverk, sem verður í leiðinni sjálfstætt sýningarrými.

Undirtitill Sequences, real time art festival, vísar til upphaflegu áherslu hátíðarinnar á tímatengda miðla og verk sem unnin eru í rauntíma. Að þessu sinni er orðið rauntími slitið í sundur og afstæði hugtakanna raun og tími kannað.  Á hátíðinni í ár gefst áhorfendum því kostur á að kynnast nokkrum sjónarhornum veruleikans sem lýsa mögulega þeim tímum sem við upplifum nú. Ingólfur og Hildigunnur takast á við spurningar um veruleika og hjáveruleika, rauntíma og afstæðan tíma með víxlverkun þeirra listaverka sem stefnt verður saman.

„Hver tími er hverjum tímverja raunverulegur á sérhverju augnabliki. Rauntíminn ferðast eftir óteljandi rásum sem hverfast um hvern þann sem þar dvelur. Það er hverjum hollt að dýfa tánni í annars tímarás og fá þannig nýtt sjónarhorn á raunveruleikann.”

Related