Tíunda Sequences myndlistarhátiðin verður sett í dag þegar gjörningurinn Sköpunarsögur eftir Elísabetu K. Jökulsdóttur verður fluttur í Veröld – Húsi Vigdísar kl. 17:00. Að því loknu tekur við fjölbreytt dagskrá víða um borg og út á landsbyggðna. Hátíðin stendur til 24.október.
Hópur listamanna hefur unnið ný verk fyrir Sequences X – Kominn tími til enda er eitt af markmiðum hátíðarinnar að næra grasrótina og ýta undir framsækna myndlist í sem víðustum skilningi. Hátíðin fer fram víða um borg m.a í Þjóðskjalasafninu þar sem fer fram fyrirlestrargjörningur. Í Flæði gallerí á Vesturgötu fer fram málstofa, listasmiðjur og frumsýning á nýju vídeóverki, þá verða tónleikar í Hafnarborg, frumsýningar á nýjum verkum í Bíó Paradís, 24 klukkustunda vörpun í Tjarnarbíó og útgáfa og uppskeruhátíð í Post-húsinu í Skeljanesi. Á Granda fer fram samsýning í Marshallhúsinu, sem hýsir Kling & Bang og Nýlistasafnið, þá fer fram gjörningur í listamannarekna rýminu OPEN og í ELKO verður til sýnis og sölu kvíðastillandi belti. Hátíðin teygir einnig anga sína út fyrir borgarmörkin; til Hveragerðis, Seyðisfjarðar, Akureyrar og Ísafjarðar þar sem unnið er með hugtök eins og rómantík, sannleika, óendanleika og vináttu. Á dagskrá hátíðarinnar eru hátt í fjörutíu viðburðir með þáttöku um fimmtíu listamanna frá öllum heimshornum.
Sequences biður ykkur vel að njóta, enda kominn tími til!