Tólfti Sequences tvíæringurinn, Sequences XII: Pása, fer fram dagana 10.–20. október 2025 í Reykjavík. Hátíðin í ár leiðir saman fjölbreyttan hóp innlendra og erlendra listamanna og lagt er upp með að kanna hvað það þýðir að upplifa og skapa „hægt”.
Sýningarstjóri Sequences XII, Daría Sól Andrews býður gestum að stíga út úr amstri daglegs lífs og taka þátt í tíu daga dagskrá sem spannar sýningar, gjörninga, fyrirlestra, gönguferðir með leiðsögn og margt fleira. Hátíðin býður upp á rými til að staldra við, íhuga og upplifa list á öðrum hraða með aukinni dýpt, ró og meðvitund.
„Tólfta útgáfa Sequences er boð til allra um að hægja á. Allt í kringum okkur ýtir okkur áfram. “Pása” skapar rými fyrir ígrundun, meðvitund og taktbreytingu. Þegar við förum okkur hægar eykst meðvitundin um hið listræna, hvort sem um er að ræða athafnir eða verk. Við eigum auðveldara með að einbeita okkur, hugleiða, skynja, snerta og vera. Við eigum auðveldara með að skynja dýpt og dvelja í hljóðri athygli. Áherslur sýninganna eru tími, endurtekning, hlustun og nánd — þannig skapast rými fyrir kyrrð og núvitund ,“ segir Daría Sól Andrews, sýningarstjóri.
Þrjár megin sýningar mynda kjarna hátíðarinnar og hver þeirra nálgast tímann á sinn hátt:
Upplifun tíma — verk og innsetningar sem byggja á tíma og skynrænni þátttöku og bjóða upp á hugleiðandi upplifun; Pólitískur tími— verk sem fjalla um upplifun og stjórnmál tíma, sérstaklega í tengslum við jaðarsetta samfélagshópa og sögur þeirra; Náttúrulegur tími — verk sem varpa ljósi á takt náttúrunnar, allt frá örsmáum vexti til jarðfræðilegra umbreytinga, og hvetja okkur til að sjá tímann á skala sem fer langt út fyrir þann mannlega.
Gestir eiga von á fjölbreyttri dagskrá með gjörningum, leiðsögnum listamanna og sýningum víðsvegar um Reykjavík og nágrenni. Á sýningunum fá gestir tækifæri til að hægja á, hlusta og tengjast.
Takið frá dagana 10.–20. október 2025. Við hlökkum til að sjá ykkur á Sequences XII: Pása, helstu samtímalistahátíð landsins.
Listamenn og nákvæm dagskrá verða kynnt síðar á árinu.
Fyrir fjölmiðla fyrirspurnir: dorothea@sequences.is
Hönnun: Hrefna Sigurðardóttir