Sýningarstjórarnir Raphael Fonseca og Yina Jiménez Suriel sýningarstýra Sequences hátíðinni sem fer fram í Reykjavík í 13. sinn dagana 1.–10. október 2027. Stjórn Sequences barst 71 umsókn og varð nálgun tvíeykisins Raphaels og Yinu fyrir valinu.
Raphael Fonseca stýrir deild nútíma- og samtímalistar frá rómönsku Ameríku hjá Denver listasafninu í Bandaríkjunum. Raphael er brasilískur fræðimaður sem starfar á mörkum listasögu, sýningarstjórnunar, gagnrýni og kennslu. Hann hefur á undanförnum árum stýrt stórum verkefnum, m.a. var hann aðalsýningarstjóri fjórtánda Mercosul tvíæringsins í Brasilíu árið 2025. Hann mun sýningarstýra tævanska skálanum á Feneyjatvíæringnum á komandi ári.

Yina Jiménez Suriel er sýningarstjóri og fræðimaður frá Dóminíska lýðveldinu. Áherslur hennar spretta úr þverfaglegum rannsóknum á byggingu ímyndunaraflsins og stöðugum breytingum samtímans. Hún er sýningarstjóri námslínunnar The Current IV (2023–2025) við TBA21 akademíuna í Madrid á Spáni og hefur gegnt stöðu aðstoðarritstjóra hjá C& Magazine síðan 2020. Hún var í teyminu sem sýningarstýrði 14. Mercosul tvíæringnum í Brasilíu.

„Okkur er heiður sýndur og við erum afar ánægð með að fá tækifæri til að stýra Sequences 2027 og teljum þetta einstakt tækifæri til að kynnast listasenunni á Íslandi. Við vonum að reynsla okkar af samstarfi við listamenn frá suðurhluta heimsins geti verið íslensku listasenunni innblástur. Samvinna er lykilatriði í okkar skapandi ferli og við hlökkum til að fara á dýptina á næstu tveimur árum með framúrskarandi listamönnum í Reykjavík.“
„Við erum spennt að vinna með Raphael og Yinu, sem koma með einstaka sýn og alþjóðlega reynslu sem mun styrkja hátíðina og skapa nýjar leiðir til samtals um list og samfélag,“ segir Tinna Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Sequences.
Sequences er alþjóðlegur listamannarekinn tvíæringur sem leggur áherslu á samtímalist og tímatengda miðla. Fyrsta Sequences hátíðin var haldin í Reykjavík árið 2006 og var þá lagt upp með að skapa vettvang fyrir tilraunakennda listsköpun og koma á tengingu milli innlendra og erlendra listamanna. Aðstandendur Sequences eru Nýlistasafnið, Kling & Bang og Myndlistarmiðstöð.
Ljósm. Vikram Pradhan.