Sýningarstjóri Sequences XII; Daría Sól Andrews



Myndlistartvíæringurinn Sequences mun fara fram í tólfta sinn dagana 10. – 20. október 2025. Daría Sól Andrews mun skapa litræna umgjörð hátíðarinnar.  

Daría er sjálfstætt starfandi sýningarstjóri og starfar bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. Árið 2021 lauk hún námi sem Curatorial Fellow í The Witney Independent Study Program í New York. Hún er með meistaragráðu í sýningarstjórnun frá Stokkhólmsháskóla og bakkalárgráðu í mælskufræði frá UC Berkeley. Daría stofnaði galleríið Studio Sol árið 2017 í uppgerðu iðnaðarhúsnæði í Reykjavík. Árið 2024 vann hún Íslensku myndlistarverðlaunin fyrir bestu samsýningu ársins Að rekja brot

„Hugmyndafræðin að baki Sequences XII tengist fagurfræði sem kallast „hæg list” (e. slow art) – og felur í sér tengingar milli myndlistar og áhorfanda, að taka sér tíma með list, með hverju og einasta verki, og íhuga nýjar leiðir til að upplifa og meðtaka myndlist. Einblínt verður á verk sem eru unnin hægt og taka tíma að mótast og verða til, einnig listamenn sem vinna að einu verkefni yfir mörg ár eða áratugi. Á hátíðinni verður lögð áhersla á samfélagslega uppbyggingu og tengingu, samveru, umræður og ábyrgð.

Við munum kanna hvað það þýðir að upplifa og framleiða á hægari nótum, með verkum sem neyða okkur til að staldra við, hugleiða og endurhugsa. Á sýningunum verður sjónum beint að listamönnum sem nálgast listsköpun sína með rannsóknum, fagurfræði, þolinmæði, skynjun og hugleiðslu, listamenn sem huga að sjálfbærni í listsköpun sinni, skapa verk af yfirvegun og fara dýpra og hægar í skoðun sinni. „Slowness” sem konsept hefur ákveðna pólitíska merkingu, sem leið til að rísa upp gegn ríkjandi hugmyndafræði og skapa mótspyrnu.” Ég nálgast „slowness” ekki eingöngu sem merkingu um tíma heldur einnig sem áherslu á samskipti og tengsl, ábyrgð, athygli og þátttöku.“ 

Sequences er listamannarekin alþjóðleg myndlistarhátíð sem haldin er annað hvert ár í Reykjavík. Undirtitill hátíðarinnar „rauntíma listahátíð (e. Real Time Art Festival)“ vísar til upprunalegu áherslu hátíðarinnar á að skapa vettvang fyrir tímatengda miðla í íslenskri myndlistarsenu. Sýningarstjórar hverrar hátíðar fá tækifæri til að túlka þessa áherslu á sinn eigin hátt. Hátíðin verður haldin í tólfta sinn á næsta ári og verður yfirskrift hennar kynnt á næstu mánuðum. 

Meðal fyrri listamanna sem sýnt hafa á hátíðinni eru Edith Karlson, Valgerður Briem, Benjamin Patterson, Elísabet Jökulsdóttir, Philip Jeck, Miruna Roxana Dragan, Joan Jonas, David Horvitz, Hekla Dögg Jónsdóttir, Guido van der Werve, Ragnar Kjartansson, Emily Wardill, Ragnar Helgi Ólafsson, Carolee Schneemann, Rebecca Erin Moran, Finnbogi Pétursson og Alicja Kwade. 

Sýningastjórar fyrri hátíða hafa bæði verið íslenskir og erlendir og má þar nefna Marika Agu, Maria Arusoo, Kaarin Kivirähk og Sten Ojavee, Þóranna Dögg Björnsdóttir og Þráinn Hjálmarsson, Hildigunnur Birgisdóttir og Ingólfur Arnarsson, Margot Norton, Markús Þór Andrésson og Alfredo Cramerotti. 

Að hátíðinni standa listamannareknu sýningarstaðirnir Kling & Bang og Nýlistasafnið ásamt Myndlistarmiðstöð auk öflugs fagráðs sem í sitja listamenn og óháðir aðilar sem eru virkir í listamannareknu senunni í Reykjavík hverju sinni. Framkvæmdarstjóri hátíðarinnar er Odda Júlía Snorradóttir.