Sequences XII: Pása kynnir opnun sýningarinnar Setminni í Norræna Húsinu þann 11. Október frá 17:00-19:00.
Setminni leiðir saman listamenn sem hver og einn vinnur með tímaskynjun handan hins mannlega kvarða. Á sýningunni má sjá verk eftir Ernu Skúladóttur, Pétur Thomsen, Julie Sjöfn Gasiglia, Rhodu Ting & Mikkel Bojesen, Bryndísi Snæbjörnsdóttur and Mark Wilson, Rögnu Róbertsdóttur, Thomas Pausz og Wauhaus. Sýningin fjallar um jökulhreyfingar, sveppanet, jarðfræðilega myndun og önnur vistkerfi sem hreyfast með ólíkum takti. Sýningin hvetur okkur til að hægja á okkur og þá birtist okkur marglaga, hringrásar kenndur tími náttúrunnar. Með nákvæmari athugun staðsetja verkin hæglæti sem form umhyggju, þar sem mannlegir taktar stillast af við flókna tímaskala jarðarinnar.
Snæbjörnsdóttir/Wilson eru íslensk-breskt listamannatvíeyki sem rannsakar tengsl manns og annarra lífvera í gegnum rannsóknardrifnar innsetningar, ljósmyndir, vídeó og texta. Frá því snemma á 21. öldinni hafa þau kannað menningarlegar og vistfræðilegar afleiðingar tilfærslu tegunda, útrýmingar og verndunar. Þekkt verkefni þeirra – eins og Visitations: Polar Bears Out of Place – sameina vettvangsrannsóknir, skjalasöfn og þverfaglegt samstarf til að spyrja hvernig við skilgreinum og hugum að öðrum lífverum, og afhjúpa þannig margbreytilegar og oft mótsagnakenndar afstöðu mannsins til náttúrunnar.
Time and Tide (2022) og Time and Again (2023) eru lóðrétt vídeóverk sem flétta saman hljóð og mynd með frásögnum af komu ísbjarna til Íslands. Þau kalla fram brothætt mót mannlegrar og ómannlegra sagna. Í samspili við skúlptúrverk víkka þau út frásagnaraðferðir um efni og vistfræði. Matrix (Svalbard) (2020), er handblásinn glerskúlptúr í hlutfallinu 1:20, miðað við raunverulegt ísbjarnarhýsi á Svalbarða. Skúlptúrinn byggir á vísindateikningum norskra rannsakenda og jarðtengir þemu verksins um búsvæði og nærveru í brothættri efnislegri mynd og ljósi. Úr innsetningunni The Secret Garden spretta Totemic Objects (2023), skúlptúrar úr rekaviði, leir og dýraleifum sem umbreytast í blendingaform, á mörkum minja og framtíðarsteingervinga. Þau vísa til samofins lífs og varnarleysis þess. Saman eru þessi verk hluti af langtímarannsóknarverkefninu Visitations, sem listamennirnir hlutu Íslensku myndlistarverðlaunin fyrir árið 2022, og halda áfram að kanna síbreytileg mörk á milli tegunda, landslags og goðsagna.
Erna Skúladóttir (f. 1983, Reykjavík, Ísland) rannsakar síbreytilegt samband manns og landslags. Í verkum sínum skoðar hún oft tímann, jarðfræði og umbreytingar í umhverfinu og skjalfestir. Með ljóðrænu auga fangar hún hljóðlátt tungumál umhverfisins og hverfulleika þess. Erna vinnur með tíma á mælikvarða jökla og jarðfræði og sýnir hæga hreyfingu og umbreytingu íslensks landslags. Ljósmyndir hennar og innsetningar sýna samspil loftslagsbreytinga og náttúrusögu og hvetja áhorfendur til að staldra við og hugleiða umfang og umbreytingar náttúru sem hefur þróast í milljónir ára.
Í verkinu Yfirborð íhugar Erna Skúladóttir viðkæmni og síbreytileika jarðfræðilegs efnisleika og afhjúpar blekkinguna um stöðugleika landslagsins. Með því að vinna með óbrenndan leir og náttúruleg efni vísar hún til stöðugra umbreytinga sem eiga sér stað undir yfirborði þess sem virðist vera fast og öruggt. Með efnivið sem þornar, springur og brotnar niður með tímanum, krefja innsetningarnar áhorfandann um næmni gagnvart hægum, vart sýnilegum breytingum. Verk Ernu túlka jarðfræðileg ferli yfir í skúlptúr, og endurspegla hvernig tíminn virkar á bæði tilfinningalegum og vistfræðilegum skala.
Julie Sjöfn Gasiglia (f. 1990, Frakkland) er listamaður sem býr og starfar á Íslandi. Verk hennar kanna tengsl okkar við hinn meira-en-mannlega heim – tengslin sem umlykja okkur og vistkerfin sem búa innra með okkur.
Skúlptúrar hennar og innsetningar verða að hugleiðingum um hæglæti, umbreytingu, ábyrgð og samofin tengsl. Þessar manngerðu verur varpa fram spurningum um sjálfbærni kerfa og þær truflanir sem geta komið fram innan þeirra.
Í heimi þar sem áreitið er stöðugt skapar Julie rými þar sem áhorfendur eru hvattir til að hlusta með öllum líkamanum, til að víkka út getu okkar til að taka eftir, finna og bregðast við hinum lifandi heimi.
Verk hennar eru margskynjunarupplifanir sem beina sjónum okkar að samhljómi mannsins við verur og form utan mannlegs mengis. Keramíkverk með innbyggðum hátölurum og hreyfivirk rými hægja á skynjuninni og ýta undir samkennd milli tegunda. Hljóð úr eigin örveruflóru listamannsins ferðast í gegnum brenndan leir, á meðan nærvera áhorfandans mótar takt og hreyfingu vökva – áminning um ósýnileg tengsl handan tungumálsins sem bíður okkur að upplifa með öllum skilningarvitunum.
Pétur Thomsen (f. 1973, Reykjavík, Ísland) er ljósmyndari sem einbeitir sér að umbreytingu landslagsins í kjölfar mannlegrar íhlutunar. Með verkefnum sem unnin eru yfir löng tímabil skoðar hann núninginn milli iðnaðarframkvæmda og viðkvæmra vistkerfa, og tekur myndir sem bæði skjalfesta og gagnrýna. Pétur beinir linsunni að landslagi í breytingu, þar sem hann fangar innrás mannsins inn í náttúruleg kerfi. Ljósmyndaröð hans kortleggur smáar en afgerandi leifar þessara umbreytinga. Hann dregur fram ummerki manna– námur, skógrækt og annað ræktað land. Myndirnar frysta augnablik og sýna landslag sem er í senn náttúrulegt og yfirgengilega umbreytt.
Í Teigskógi sýnir Pétur röð ljósmynda sem teknar eru í birkiskógi þar sem ofbeldisfull mannleg íhlutun hafði átt sér stað í áður ósnortinni náttúru. Myndirnar skjalfesta augnablikið þegar mulningsvél var látin ryðja sér leið í gegnum skóginn til að rýma fyrir umdeildum vegaframkvæmdum. Myndirnar, sem raðaðar eru upp í grind, sýna nákvæm smáatriði af rifnum viði, brotnum greinum og röskuðum mosa og afhjúpa grimmilegar afleiðingar vélvæddar innrásar. Endurtekningin og fjölbreytnin í röðinni vekja tilfinningu fyrir kerfisbundinni eyðileggingu og gera hægfara ofbeldi sýnilegt sem annars er falið í innviðaþróun.
Ragna Róbertsdóttir (f. 1945, Reykjavík, Ísland) skoðar árstíðabundna hringrás vaxtar, hnignunar og endurnýjunar með viðkvæmum og oft hverfulum efnum. Verk hennar fjalla um óstöðugleika og skapa myndrænt tungumál hægrar framvindu—blómgunar, visnunar, umbreytingar—sem talar til kyrrlátrar seiglu náttúrunnar. Með því að vinna með efni á borð við hraun, torf, salt og leir umbreytir Ragna jarðfræðilegum ferlum í ljóðrænar aðgerðir. Verk hennar virðast einföld við fyrstu sýn, en krefjast langvarandi íhugunar.
Mínimalísk skúlptúrverk Rögnu og inngrip hennar í náttúruna — Timescape, Saltscape og Path — spretta úr efnivið Íslands og vekja með okkur hugrenningar um hæga rotnun og setmyndun landsins sjálfs. Hvert sandkorn eða brot virðist svífa í jarðfræðilegu minni og markar framrás árþúsunda í einu kristölluðu augnabliki. Orðið scape í titlum verka hennar vísar til þess hvernig tíminn verður sýnilegur í gegnum efniviðinn. Þessi verk verða mælikvarðar, sem fanga set lög aldabba og stilla náttúruna ekki upp sem bakgrunn fyrir mannlegt líf, heldur sem mælikvarða þess og spegil.
Ragna dregur fram hina mildu en áþreifanlegu nærveru landslagsins með því að grípa fínlega inn í, en með áhrifamiklum hætti. Við innganginn að Norræna húsinu eru koparplötur felldar í jörðina, sem fanga birtu og veðurfar með tímanum—merkja þröskulda og bjóða gestum upp á rólega og meðvitaðri inngöngu í rýmið. Á sama hátt markar hún gönguleið í mýri við Norræna húsið með rauðu hrauni og steinu, og skapar þannig áþreifanlegt og sjónrænt inngrip sem magnar upp jarðfræðileg minni landsins.
Rhoda Ting (f. 1985, Ástralía) og Mikkel Bojesen (f. 1988, Danmörk) eru listamannatvíeyki með aðsetur í Kaupmannahöfn sem starfa á mörkum lista og vísinda. Þau beina athyglinni að virkni ómannlegra fyrirbæra og mögulegum framtíðarsviðsmyndum, og nýta lifandi lífverur og rannsóknarefni í skúlptúr- og gjörninga innsetningar. Með þverfaglegu samstarfi ögra þau mannmiðaðri frásögn og leggja til nýjar leiðir til samlífis. Í samstarfi við vísindamenn vinna þau með bakteríur, gró og aðrar lífverur til að gera ósýnileg ferli jarðar sýnileg. Með því að rækta lifandi kerfi í skúlptúrlegu samhengi beina þau sjónum að samvinnu milli tegunda og tímaskölum sem eru langt handan mannlegrar skynjunar.
Deep Time býður áhorfendum að stíga út úr þröngum ramma mannlegs tímaskyns og gera sýnilega jarðfræðilega tímaskala sem urðu til á undan mannkyninu og munu vara löngu eftir það. Með því að kynna þróunarsafn jarðarinnar setur verkið mannlega tilvist í samhengi sem smávægilegt augnablik í sögu plánetunnar. Áhrifin eru bæði auðmýkjandi og hugleiðandi – áhorfandinn neyðist til að sleppa tökum á hraða og flýti og taka í staðinn upp jarðfræðilegt þolgæði og heimsfræðilega íhugun.
Rhizome færir hins vegar smásjárlífið í brennidepil, þar sem áherslan er á samtvinnuð, ólínuleg og dreifð net svepparíkisins. Innsetningin, sem samanstendur af petrískálum með lifandi sveppum, virkar sem lifandi kerfi – hægt, ófyrirsjáanlegt samstarf á milli listar og lífvera. Með þessum hætti tileinkar tvíeykið sér bókstaflega hugmyndafræði „hægrar listar“: verkið þróast með tímanum, breytist ófyrirsjáanlega og hafnar sýningarlegum yfirborðsáhrifum. Verkefni þeirra ögra ekki aðeins athyglisgáfu áhorfandans heldur einnig skilningi hans á þróunar-, vistfræðilegum og fagurfræðilegum kerfum.
Thomas Pausz (f. 1978, Frakkland) er myndlistarmaður og hönnuður sem býr í Reykjavík. Thomas gerir skúlptúra og hugmyndafræðileg verk sem kanna siðfræði póst húmanismans, vistfræðilegar spurningar, frásagnir af umhverfinu og möguleika á samlífi tegunda. Innsetningar Pausz kalla gjarnan fram blandaðra heima sem eru á mörkum náttúrlegra kerfa og mannlegrar íhlutunar. Vistfræðileg miðlun hans skapar „núningsfleti“ milli lífvera og tækni og rannsakar draugalega skörun líffræði, tölvunar og vistfræðilegrar siðfræði.
Í verki sínu Double Capture býður hann okkur inn í nána, skynræna kóreógrafíu frævunar — ekki einungis sem líffræðilegs ferlis, heldur sem tímabundins, gagnkvæmt flutnings milli tegunda. Gróðurhúsið verður að lifandi hljóðfæri, stilltu á leyndu merkin sem blóm og frævandi skordýr skiptast á: titrandi tungumál snertingar, litar, ilms og ósýnilegra rafsegulpúlsa. Double Capture vísar til sjálfrar frævunarinnar, þar sem blómið „grípur“ frævandann — og öfugt.
WAUHAUS er listhópur með aðsetur í Helsinki. Verk hópsins liggja á mörkum ólíkra listforma og fara fram á margvíslegum stöðum, allt frá litlum tilraunasviðum og borgarrýmum til stórra leikvanga og aðalsviða viðurkenndra leikhúsa. Meðlimir WAUHAUS eru leikmyndahönnuðirnir Laura Haapakangas og Samuli Laine, leikstjórinn Juni Klein, hljóðhönnuðirnir Jussi Matikainen og Heidi Soidinsalo, danshöfundurinn Jarkko Partanen, framleiðandinn Minttu-Maria Jäävuori og framkvæmdastjórinn Julia Hovi.
Í Some Unexpected Remnants skoðar WAUHAUS ásamt Jonatan Sundström tímabundna og efnislega arfleifð sorps. Verkið gerist í Vuosaarenhuippu, gömlum urðunarstað sem hefur verið umbreytt í útivistarsvæði, og úrgangsstað í Kuopio. Með þessari hægu, ígrundandi nálgun íhuga þau líftíma efna sem samfélagið reynir að gleyma – urðunarstaði sem lifa okkur sjálf og efni sem hverfur aldrei alveg. Verkið býður upp á hljóðláta, íhugun um niðurbrot og endurnýjun. Upphaf verksins í gjörningalist verður einnig sýnilegt í sviðsetningu þess, þar sem vélum og landslagi er raðað saman í eins konar dans. Þannig er undirstrikað samspil náttúrulegra og tilbúinna takta. Verkið verður að ljóðrænu minnismerki um hægfara niðurbrot og aðlögun og sýnir hvernig úrgangur – líkt og minningar og land – andar, breytist og þróast í þögninni.