Fischersund Collective er íslenskt lista- og hönnunarkollektíf stofnað af systkinunum Ingu, Jónsa, Sigurrós og Lilju, ásamt samstarfsaðilunum Sindra og Kjartani. Þau sameina lykt, hljóð, myndlist og gjörninga og brjóta niður hefðbundin mörk á milli listar, skynjunar og hversdagslegrar reynslu. Fischersund sýnir innsetningu um ljóðrænt gildi niðurbrots. Í gegnum ilmandi skúlptúra sem gefa frá sér lykt, handmáluð ljósmyndaverk sem kveikja á skynjun okkar fyrir tíma og minni, áferðarmikil vídeóverk og hljóðbúta spilaða á segulbandstæki verður til efnislegt og andrúmsríkt rými þar sem rotnun er ekki tákn hruns heldur umbreytingar. Hér verður niðurbrot að leið til að merkja tímann. Innsetningin býður áhorfendum að dvelja, anda með verkinu og upplifa tímaskynjun sem hafnar hraða en leggur áherslu á hið næma, hverfula og ófullkomna.