Maija Mustonen, Hrefna Lind Lárusdóttir, Ami Karvonen + Rusto Myllylahti / Elatu Nessa

(FI/IS)

I’m a heart beating in the world er gjörningur og tónverk sem fer fram í náttúruböðunum í Hvammsvík. Verkið er skapað af Maiju Mustonen (f. 1979, Helsinki, Finnland), Hrefnu Lind Lárusdóttur (f. 1985, Reykjavík, Ísland) og dramatúrgnum Ami Karvonen, með tónlist eftir Rusto Myllylahti (f. 1985, Tornio, Finnland). Verkið býður áhorfendum í vatnið til að upplifa flot, snertingu og hreyfingu sem hluta af lifandi innsetningu. Með því að sameina tónlist, dans og líkamlega þátttöku leggur verkið áherslu á mýkt og hæglæti – bæði fyrir þátttakendur og listamenn – og skoðar mjúka, leiðandi krafta vatnsins sem kóreógrafísks þáttar. Í vinnuhópnum eru einnig danslistamennirnir Vasiliki Kontopoulou og Saga Kjerulf Sigurðardóttir og myndlistarkonan Caressa Betist.

Verkið byggir á áframhaldandi rannsókn Mustonen á vatnsdansi og flotæfingum, einkum aðferðinni Aguahara, sem er vatnsbundin hreyfi- og umönnunaraðferð milli tveggja einstaklinga. Í verkinu verður samspil vatns og líkama, hreyfingar og þyngdarleysis að náinni, umlykjandi reynslu þar sem traust, nærvera og sameiginlegt rými laugarinnar er í forgrunni. Hljóðheimur verksins er marglaga og sameinar lifandi og neðansjávar tónlist sem blandast hreyfingum fljótandi líkama í heildræna, skynræna samsetningu.