Hildur Elísa Jónsdóttir (1993) er myndlistarmaður og tónskáld búsett í Amsterdam. Hún hefur áhuga á frásagnarhefðum og því að skapa alltumlykjandi upplifanir í rými, sem oft sækja innblástur í hversdagslega hluti og uppákomur og notast við tíma og endurtekningar til þess að sýna viðfangsefni sín í nýju ljósi. Verk hennar þrífast í þverfaglegum rýmum og gera tilkall til sýningarrýma sinna, þ.e. notast bæði sýningarnar sjálfar og verk annarra sem leikmynd. Þau eru leikræn en andæfa svarta kassanum, geta rjúfa rými og krefjast tafarlausrar athygli.
Hún lauk MA í tónlistardrifnum gjörningum frá Sandberg Instituut, BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2019 og burtfararprófi á karínettu frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Verk hennar hafa verið sýnd og flutt á einkasýningum í Ásmundarsal (IS), Gallerí Úthverfu (IS) og Y Gallery (IS), á samsýningum í Arti et Amicitiae (NL), Kjarvalsstöðum (IS), Nordatlantens Brygge (DK), Nýlistasafninu (IS), POST (NL) og SIGN (NL) og verið valin á hátíðar á borð við Gaudeamus (NL), Hamraborg Festival (IS), Nordic Music Days (UK), O. Festival (NL), Opera Forward Festival (NL), Platform Nord (NO), Rewire (NL), Tokyo Biennale (JP) og Ung Nordisk Musik.
Elja samanstendur af ungu íslensku klassísku tónlistarfólki. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa stundað nám saman á Íslandi áður en haldið var erlendis, og starfa þau nú flest sem einleikarar eða hljómsveitaspilarar víða um heim. Frá stofnun sveitarinnar árið 2017 hefur hún skipað sér í sess meðal fremstu kammersveita landsins og hefur vakið athygli fyrir líflegan og ferskan flutning. Elja hefur á þessum árum komið reglulega fram og stærstu tónleikarnir yfirleitt bæði á sumrin og um áramót ásamt smærri kammertónleikum á haust- og vorönn. Tónleikahúsnæðin hafa verið fjölbreytt og þar má nefna Hörpu, Gamla Bíó, Hof, Gömlu kartöflugeymslurnar, Iðnó, Tjarnarbíó og Miklagarð í Varmahlíð. Elja hefur hlotið mikið lof fyrir flutning sinn og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2019 sem flytjandi ársins (hópar) í flokknum Sígild og samtímatónlist.