Brák Jónsdóttir

(IS)

Þráin eftir ódauðleika endurspeglast oft í óbilandi löngun til að umbreytast. Ýmsar tegundir hafa vegna einstakra eiginleika sinna, verið gerðar að tákni fyrir eilífðina í leit okkar og mótun á hverfulum hugmyndum um eilífa tilveru. Ein slíkra tegunda er smáhveljan Turritopsis dohrnii sem er þekkt fyrir hæfileikann til að snúa lífsferli sínum við. Tegundin hefur einnig verið nefnd ódauðlega marglyttan. Skúlptúr Brákar tekur sér formfestu í flóknum vélum og stökkbreyttum fígúrum í þeim tilgangi að víkka út ímyndunarafl samtímans. Gjörningur verður fluttur samhliða verkinu.

Brák Jónsdóttir (f. 1996) er myndlistarmaður á Íslandi sem býr og starfar í Hörgársveit. Verk hennar kanna allt frá forsögulegum þemum til ímyndaðrar framtíðar, þau segja frá skálduðum atburðum og blása lífi í útdauð dýr og verur af öðrum heimi. Brák brúar bil þekkingar með goðsögum, skapar tótemískar skúlptúrinnsetningar og kafar ofan í spennuna milli hins tilbúna og náttúrulega.

Verk hennar eru ef til vill hrollvekjandi við fyrstu sýn, en búa þó yfir blíðu, næmni og húmor þar sem skynrænar tilgátur spretta upp úr staðreyndum. Dularfull vistkerfi kveikja tilvistarspurningar og bjóða áhorfendum að ígrunda leyndardóma lífsins.

Associated events: