Í Kling&Bang verða tvö verk til sýnis: Field eftir Sigurð Guðjónsson og Tæring eftir Fischersund.
Verkin Field eftir Sigurð Guðjónsson og Tæring eftir Fischersund samanstanda af heildrænum, tímabundnum verkum sem bjóða áhorfendum inn í umlykjandi rými kyrrðar og skynjunar. Á sýningu Fischersund er lykt, hljóði og efnislegum áferðum fléttað saman og hugmyndin um niðurbrot rannsökuð sem umbreyting. Sýningin stillir okkur inn á takt líkamans og andrúmsloftsins. Íhugult myndbandsverk Sigurðar beygir ljós og rúm í nær stöðnun og afhjúpar ósýnilega strúktúra sem ramma inn skynjun okkar. Í sameiningu skapa verkin rými rólegrar dýptar þar sem hæglæti verður að meðvitaðri aðferð umhyggju og nándar, sem eykur næmni okkar fyrir fíngerðri framvindu tímans.
Sýningin stendur yfir til 23. Nóvember og er aðgengileg á hefðbundnum opnunartímum Kling&Bang.
Fischersund Collective er íslenskt lista- og hönnunarkollektíf stofnað af systkinunum Ingu, Jónsa, Sigurrós og Lilju, ásamt samstarfsaðilunum Sindra og Kjartani. Þau sameina lykt, hljóð, myndlist og gjörninga og brjóta niður hefðbundin mörk á milli listar, skynjunar og hversdagslegrar reynslu. Fischersund sýnir innsetningu um ljóðrænt gildi niðurbrots. Í gegnum ilmandi skúlptúra sem gefa frá sér lykt, handmáluð ljósmyndaverk sem kveikja á skynjun okkar fyrir tíma og minni, áferðarmikil vídeóverk og hljóðbúta spilaða á segulbandstæki verður til efnislegt og andrúmsríkt rými þar sem rotnun er ekki tákn hruns heldur umbreytingar. Hér verður niðurbrot að leið til að merkja tímann. Innsetningin býður áhorfendum að dvelja, anda með verkinu og upplifa tímaskynjun sem hafnar hraða en leggur áherslu á hið næma, hverfula og ófullkomna.
Sigurður Guðjónsson (f. 1975, Reykjavík, Ísland) vinnur með vídeóinnsetningar sem kanna efnisleika tímans, hljóðs og vélrænnar hreyfingar. Hann beinir athyglinni gjarnan að vanræktum ferlum iðnaðar eða náttúru og magnar upp fínlegan takt efnis í umbreytingu. Í verkinu Field sýnir Sigurður Guðjónsson nýja, alltumlykjandi vídeóinnsetningu þar sem efni, hljóð og ljós renna saman í hægfara, hugleiðandi sviðsetningu. Kjarninn í verkinu er könnun á gleri, ekki könnun á tærum og fallegum hlut heldur er efnið sjálft fjarlægt frá upprunalegri mynd sinni og er nú orðið að óþekktu fyrirbæri. Sigurður kristallar kjarna glersins í flöktandi áferð, takti og hreyfingum sem leysa upp mörk hins efnislega og óefnislega. Með tilheyrandi hljóðverki sem breytist með smávægilegri breytingu á styrkleika er áhorfandinn umvafinn skynrænu sviði sem erfitt er að skilgreina. Field snýst síður um það sem sést en frekar um það sem finnst – það er upplifun á efni í umbreytingu, tíma í svifstöðu og skynjun sem teygist handan hins venjubundna.