Elísabet Jökulsdóttir & Dagur Hjartarson: Tunglkvöld N°XIII

20.10.2021

21:30

–23:00

Tunglið er málsvari næturinnar, lítilmagnans, flæðiskerja, hins föla skins og eyðilegra eyja.

Tunglið forlag fagnar þeirri staðreynd að dagurinn er stuttur og nóttin löng með útgáfu tveggja nýrra frumsamdra Tunglbóka eftir heiðurslistamann Sequences x, Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur og Dag Hjartarson. Koma bækurnar út í 69 eintökum hvor.

Á Tunglkvöldum er lesið upp úr bókunum, tónlist flutt, gjörningar framdir. Bækurnar tvær eru til sölu á meðan dagskráin lifir en það sem óselt er á miðnætti er sett á eldinn og brennt, í samræmi við hefðir, enda lifa Tunglbækur ekki nema í andartak. 

Tunglbækur eru utan flokka, þær eru hvorki hitt né þetta. Þær eru örlítið minni en venjulegar bækur að broti til og öðruvísi að innihaldi einnig. Tunglkvöld eru farvegur fyrir útgáfu á skáldskap  sem passar annars illa inn í mót hefðbundinnar bókaútgáfu. Ragnar Helgi Ólafsson og Dagur Hjartarson eru forsvarsmenn Tunglsins.

Dagur Hjartarson (f. 1986) er rithöfundur og ljóðskáld. Hann fékk Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2012 fyrir sína fyrstu ljóðabók og Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2016. Þá var Dagur tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins árið 2017 fyrir skáldsöguna Síðasta ástarjátningin. Í september 2017 sendi hann frá sér sína aðra ljóðabók, Heilaskurðaðgerðin.

Heiðurslistamaður Sequences X – Kominn tími til er Elísabet Kristín Jökulsdóttir. Elísabet hefur þá hæfileika að geta spunnið þræði á milli ólíkra listforma og notar rödd sína til þess að segja hlutina hispurslaust, en jafnframt minnir okkur á töfrana. Elísabet býr yfir tungumáli gyðjunnar og birtist okkur í ólíkum myndum; skapar og eyðir til skiptis, er utan og innan við og leikur sér að því að dansa á línunni þar á milli. Í verkum sínum er Elísabet greinandi á eigið sjálf og þjóðarinnar og tekst á við hið útópíska hlutverk listarinnar sem hreyfandi afli í samfélaginu. Liggur styrkur hennar í því lifandi og margbreytilega sambandi sem hún á við áhorfendur og áheyrendur sína, þar sem hún sjálf er sem almenningslistaverk sem stöðugt hreyfir við hugmyndum samfélagsins og hreyfir þannig við tímanum og tekur þátt í hinni eilífu endursköpun heimsins.

Ragnar Helgi Ólafsson (f. 1971) er myndlistarmaður og rithöfundur. Ragnar hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina «Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum» og hefur í tvígang verið tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hann hefur til þessa gefið út sex bækur sem einnig hafa komið út í þýðingum á meginlandinu. Ragnar Helgi hefur og sýnt myndlistarverk og gjörninga beggja vegna Atlantshafsins. Hann er annar stofnenda Tunglsins forlags og einn ritstjóra Ljóðbréfs. Fjallað hefur verið um verk hans í blöðum og ljósvakamiðlum hér heima sem og í erlendum miðlum eins og The Guardian, BBC World Service, Libération og New York Times. Ragnar Helgi býr og starfar í Reykja­vík.

Tunglið kallar á skáldskap og Tunglið forlag svarar kallinu með útgáfu tunglbóka. Á Tunglkvöldum eru allar dyr opnar, allan tímann, því hið föla skin tunglsins hlífir engum. Tunglbækur eru utan flokka, þær eru hvorki hitt né þetta. Þær eru örlítið minni en venjulegar bækur að broti til og öðruvísi að innihaldi einnig. Tunglkvöld eru farvegur fyrir útgáfu á skáldskap  sem passar annars illa inn í mót hefðbundinnar bókaútgáfu.