SEQUENCES IXÍ ALVÖRU

11-20.OKTÓBER 2019INNGANGUR
-  HEIÐURSLISTAMAÐUR
-  LISTAMENN
-  TEXTAR
-  SÝNINGARSTAÐIR
-  DAGSKRÁ
-  UTANDAGSKRÁ
-  FRÉTTIR
-  UM SEQUENCES 
-  ARKÍF
LAUS STÖRFENGLISHSequences real time art festival er listamannarekin myndlistarhátíð sem haldin er annað hvert ár í Reykjavík.  Frá upphafi hefur verið lagt upp með að þar ríki andi frumkvæðis, tilrauna og áræðni. Stofnaðilar og ábyrgðaraðilar Sequences eru Kling & Bang (st. 2003), Nýlistasafnið (st. 1978) og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Sequences er rekin án hagnaðarsjónarmiða.


SEQUENCES
c/o Kynningarmiðstöð
íslenskrar myndlistar

Gimli, Lækjargötu 3
101 Reykjavík


00354 5627262
sequences@sequences.is ︎

Mark
Við [sýningarstjórar] völdum fjóra ólíka einstaklinga til að leggja orð í belg og bregðast á ólíkan hátt við grunnhugmynd okkar. Sýningagestir bæta síðan við sinni sýn og upplifun. Þetta er opinn tilgátu viðburður um tíma okkar og stað í tilverunni. Textarnir fara hér á eftir.Guðbjörg R. Jóhannesdóttir
Hvað... 1) vil ég segja... inn í Sequences... um tíma og raunveruleika?

Ég heyri tímann líða í vatnshljóðinu sem rennur endalaust áfram áfram áfram. Ég finn hann líða með hverju orði og andvarpi sem falla af vörum mínum. Hver er skynjun mín af tímanum og hvað get ég sagt um hana? Hvernig mætast tíminn og raunveruleikinn í reynslu okkar og skynjun? Hér sit ég og staldra við tímann, en tíminn staldrar aldrei við, eða hvað? Hann heldur áfram áfram áfram að renna eins og vatnið.

(Andvarp)... Þetta með tímann, okkur er kannski kennt að skilja hann sem... línulegan... að hann færist frá fortíð... inn í nútíð inn í framtíð... en... tíminn er kannski meira... (eins og vatnið?) Við höfum vanist því að mæla tímann út frá dagatölum og klukkum, en hvað verður þá um tímann sem við lifum? Tíminn líður á ólíkan (ómælanlegan) hátt eftir því hvort við lifum hann í eftirvæntingu og bið eða gleði og flæði. Hvernig lifðum við tímann fyrir daga klukkunnar og dagatalsins? Í gegnum takta líkamans og náttúrunnar; svefn, vöku, hjartslátt, andardrátt, tíðarhring, vöxt, hrörnun, fæðingu, dauða... hringrás. (Andvarp)... ef við hugsum um og viðurkennum hvernig við erum sem líkamar og mannverur að þá...er hægt að útskýra það með þessu retention 2) dæmi... alveg eins og fóstrið... (andvarp)... skynjar einhvernveginn svona heildina af því að vera... í leginu 3) og... og þessi heildarskynjun... hún einhvernveginn... semsagt heildarskynjunin á hverju augnabliki... hún... implyar 4) ... eða semsagt hún einhvernveginn... svona nærir næsta augnablik og næsta og næsta þannig að þetta svona byggist upp... og það er þetta retentions... sem eru þá unthematized memories... (andvarp)... minningar sem að festast í líkamanum og verða að svona mynstrum sem byggja upp allt það sem við erum... og ef við hugsum um það svoleiðis... hvað gerist þá með tímann?... Þá er kannski hægt að segja að fortíðin sé líka í... sé alltaf virk í núinu sem náttúrulega... auðvitað... en hverju erum við að bæta við?... Í rauninni að núið getur breytt fortíðinni af því að það getur breytt virkni fortíðarinnar... breytt einhverju mynstri kannski... ef það verður svona... eitthvað svona... shift... Að það sé einhvernveginn heildarskynjun... á fortíðinni og við getum farið inn í eitthvað mynstur úr fortíðinni... (andvarp)... og breytt því í núinu... og þá er fortíðin breytt að því leyti að virkni hennar er breytt... og þannig er tíminn ekki línulegur heldur... (andvarp)... hringlaga kannski? (vatn?)... en hvað þá með framtíðina?... Einmitt, það sem er í núinu og fortíðinni... það bý líka í framtíðinni... það er alltaf eitthvað svona implying... (andvarp) og það má segja að þetta sé svoldið... eins og landslag... allt sem hefur gerst í fortíðinni... er lag eftir lag eftir lag það sem landslagið er í dag (andvarp)... og af því að landslagið er einmitt ekki bara þetta fýsíska, ef maður hugsaði það þannig þá gæti kannski aldrei fortíðin í landslaginu breyst... en ef við tölum um skynjun okkar á því sko þá... getur hún kannski breyst... (andvarp)... (list hjálpar okkur oft að breyta skynjun á landslagi sbr. gömlu húsin á Seyðisfirði sem Dieter Roth ljósmyndaði, myndunin breytti skynjun fólks á húsunum og þeim ferlum sem húsin eru) og sú skynjun í núinu getur haft áhrif á framtíðina... Dettur í hug sagan um að það átti einhverntímann að rífa niður öll húsin á Tjarnargötunni eða einhverntímann átti að stífla Gullfoss... (andvarp) að þá var kannski skynjun fólks á... fortíðinni, semsagt því sem að hafði leitt til Tjarnargötunnar eða leitt til Gullfoss (ferlunum), semsagt skynjunin var ekki eins og hún er í dag og hún varð síðar, og var hjá sumum þá (Sigríði frá Brattholti t.d.), sem báru kennsl á að þetta væri eitthvað sem á að varðveita... og með því að taka þá ákvörðun að varðveita Tjarnargötuna og Gullfoss að þá varð til framtíð sem er Tjarnargata í dag og Gullfoss í dag sem... (andvarp)... væri allt öðruvísi ef fólk hefði ekki breytt skynjun sinni á fortíðinni þá... og svo hefur það í raun líka einhvernveginn... þessi saga að hafa næstum misst Tjarnargötuna og næstum misst Gullfoss... hefur líka áhrif á hvernig við skynjun þessa staði í dag... eitthvað svona þakklæti og (andvarp) svona... þegar maður skynjar að eitthvað gæti vantað þá verður það einhvernveginn mikilvægara, skynjar maður mikilvægi þess sterkar... Þannig að í hverjum einasta líkama; dýrs, eða manneskju eða plöntu... er (andvarp) allt sem að... hún hefur skynjað... og allt sem hún skynjar í dag... þannig að einhvernveginn skynjunin er kjarninn... hún er svo kröftug, hún getur gert allt, hún getur breytt fortíðinni... þannig séð... þetta snýst eiginlega um að taka þetta allt út frá skynjun á tíma frekar en uppröðun á tíma...1) ... = vatnshljóð í bakgrunni = implying

2) Retention, sem mætti kannski þýða sem varðveisla, er hugtak sem Edmund Husserl notaði ásamt hugtakinu protention til að lýsa skynjun og tíma. Maurice-Merleau Ponty skrifaði eftirfarandi um þessi hugtök: „Husserl uses the terms protentions and retentions for the intentionalities which anchor me to an environment. They do not run from a central I, but from my perceptual field itself, so to speak, which draws along in its wake its own horizon of retentions, and bites into the future with its protentions. I do not pass through a series of instances of now, the images of which I preserve and which, placed end to end, make a line. With the arrival of every moment, its predecessor undergoes a change: I still have it in hand and it is still there, but already it is sinking away below the level of presents; in order to retain it, I need to reach through a thin layer of time. It is still the preceding moment, and I have the power to rejoin it as it was just now; I am not cut off from it, but still it would not belong to the past unless something had altered, unless it were beginning to outline itself against, or project itself upon, my present, whereas a moment ago it was my present. When a third moment arrives, the second undergoes a new modification; from being a retention it becomes the retention of a retention, and the layer of time between it and me thickens. […] Time is not a line, but a network of intentionalities.(Merleau-Ponty, Phenomenology of Perception, þýtt af Colin Smith, London/New York: Routledge, 1958/2006, bls. 483-484).

3) Jonna Bornemark fjallar um veru fóstursins í leginu og hvernig skynjun þess er annars eðlis en sú skynjun sem á sér stað utan legsins í skrifum sínum um fyrirbærafræði meðgöngu. Þar sýnir hún hvernig þetta svið skynjunar sem vaknar fyrst í leginu fylgir okkur einnig utan legsins sem sá grundvöllur allrar skynjunar, sem við tökum ekki eftir: „But perception is here [in the womb] of another character. Vision is less important, and hearing takes precedence. There is taste and smell (of the amnioitic fluid) – but not connected to feelings of hunger. There are no objects in the sense of autonomous and thematized “things” that are identified as one and the same in the stream of perceptions. The perceptions are thus not understood as belonging to objects, but flow in a stream, intertwined with other perceptions. These perceptions also linger, in what Husserl calls retention: i.e. non-thematized memories. As retentions they linger and affect the following experiences. The layers of perception are still few, and each moment is more filled by its presence than by earlier perceptions or expected later perceptions. Patterns are formed through what Husserl called passive synthesis, in which layers of experiences through retention are put on top of each other and form patterns.Some of these patterns are continually there: the rhythm of the mother breathing, of her heartbeats, of the foetus’s heartbeats, and more sporadically of the mother’s intestines. These rhythms are felt and heard in a perception where touching and hearing are not separated. Every sound or pulsation is also magnified through the amniotic fluid. The kinaesthetic feeling of movement is not yet connected to movement in a world, and there are no bodies experienced as entities that would be held together, neither of the self nor of others. Instead there are a lot of motions going on, though these are not yet separated into inner and outer.“(Bornemark, Life Beyond Individuality: A-subjective Experience in Pregnancy, í Phenomenology of Pregnancy, ritstýrt af Jonnu Bornemark og Nicholas Smith, Södertörn Philosophical Studies 18, bls. 255, feitletrun mín).

4) Eugene Gendlin hugsar hugtakið implying í bók sinni The Process Model, Northwestern University Press, 2017. Þessi hugleiðing er skrifuð inn í hugsanir sem kviknuðu í vinnustofu um bókina sem haldin var á vegum rannsóknarverkefnisins Líkamleg gagnrýnin hugsun/Embodied Critical Thinking í ágúst 2019.


Guðbjörg R. Jóhannesdóttir er lektor við listkennsludeild LHÍ og nýdoktor við Heimspekistofnun HÍ.

 Kristján Leósson
„No equation
to explain the division of the senses
No sound to reflect
the radiance of time“

(Patti Smith & Fred Smith, It takes time)Hugtökin „raun“ og „tími“ eru hvort um sig nauðsynleg blekking – tilbúinn veruleiki sem fellur um sjálfan sig við alla nánari skoðun en er samt svo óþægilega fast rótaður í tengslum okkar við umhverfið, við okkur sjálf og við hvort annað.

Hvert okkar ákveður – eins og um sé að ræða hvaða hversdagslegu athöfn sem er – hvað það er sem gerir veruleika að „raun“-veruleika. Slík athöfn krefst þess þó að stærstum hluta þess sem tilheyrir umræddum „raun“-veruleika sé kastað burt – síaður gegnum skynfæri okkar mótast veruleikinn af takmarkaðri getu okkar til að vinna úr þeim upplýsingum sem bornar eru á borð.

Sú sameiginlega ímyndun að við deilum einum „raun“-veruleika er gróf en þó oftast óumflýjanleg nálgun. Veigamikill hluti af sameiginlegri nálgun okkar á hinn ímyndaða „raun“-veruleika er sú að við séum þátttakendur í einhvers konar flæði tímans – tíma sem við getum hvorki séð né mælt en án hvers við höfum enga tilvist, enga rödd, enga ímyndun.

Þegar við ræðum um „tíma“ þá göngum við út frá því að framtíðin sé nánast áþreifanlegt fyrirbæri, þrátt fyrir að hún hafi aldrei verið til og verði, eðli málsins samkvæmt, aldrei til. Sömuleiðis má sýna fram á að allt tal um fortíð sé merkingarlaust nema í óhlutbundnum skilningi – sem samantekt allra mögulegra fortíða. Við smíðum hina svokölluðu fortíð úr þeirri flækju fyrirbæra sem við skynjum í nútíðinni, fyrirbæra sem (virðast) hrúgast upp hraðar en þau eyðast og hverfa.

Það sem eftir stendur er því aðeins nútíðin. Þetta litla (en þó ekki óendanlega litla) bil sem við sitjum föst í er þó á sama hátt óáþreifanlegt – við deilum ekki nútíð með öðrum og ekki einu sinni með okkar nánasta umhverfi. Við vitum ekki hvað skilgreinir umfang nútíðarinnar, aðeins að hún er hverfandi stutt en tekur þó aldrei enda  – fyrr en allt tekur enda.

Lögmál náttúrunnar eru almennt samhverf með tilliti til tíma og allt tal um hvort hann líði áfram eða afturábak er því marklaust –  ef undan er skilin hin óumflýjanlega óreiðuaukning alheimsins sem leitast við að eyða öllu því sem við gefum merkingu. Í því samhengi má líta á okkar tilvist og alla okkar sköpun sem dæmi um staðbundinn tíma sem líður afturábak. Taki alheimurinn upp á því að dragast saman í stað þess að þenjast út verður þessu öfugt háttað, hvers kyns fyrirbæri hlaðin merkingu munu þá stöðugt verða til af sjálfu sér og listamenn verða þeir sem finna leiðir til að vinna gegn hinu óstöðvandi sköpunarafli tímans.
Vel má vera að úr mótsögnum um óraunveruleika tíma og raunveruleika verði best leyst „með því að ganga“ – solvitur ambulando – eins og sagt er að gríski heimspekingurinn Díógenes hafi gert þegar Zeno færði rök fyrir því að öll hreyfing væri ómöguleg. Best fer þó á því að láta lesendum eftir að gera slíkt upp við sjálfa sig.

Kristján Leósson er menntaður í eðlisfræði, verkfræði og heimspeki og hefur undanfarna tvo áratugi aðallega starfað við hagnýtar rannsóknir í ljóstækni, efnistækni og nanótækni innan háskóla, rannsóknastofnana og nýsköpunarfyrirtækja. Hann hefur einnig unnið að fjölda verkefna með fólki af ólíkum fræðasviðum, allt frá líffræði og lyfjafræði yfir í hönnun og myndlist. Hann starfar nú sem þróunastjóri sprotafyrirtækisins DT-Equipment.

Margrét Bjarnadóttir 
Um daginn fékk ég símhringingu frá tryggingafélagi sem bauð mér tvo kosti: að ég kæmi til þeirra og þeir myndu gera mér tilboð í tryggingarnar eða þá að þeir myndu „senda mann“ til mín. Þriðji kosturinn var auðvitað líka í boði: að afþakka og það hafði ég margoft áður gert. Tíðindaleysi daganna gerði það hins vegar að verkum að mér þótti spennandi að fá ókunnugan mann í heimsókn. Þetta var viðeigandi heimsókn að fá; viðkvæm og óþægileg – alveg eins og mér leið. Ég hafði líka hugsað óvenju mikið um líf- og sjúkdómatryggingar vikurnar á undan þannig að ég leit á þetta sem augljóst merki um að ganga í málið. Og hann kom, tryggingamiðlarinn, um hádegið einn daginn. Alveg eins og ég hélt að hann yrði; í jakkafötum og með skjalatösku – sem var reyndar mjúk en ekki hörð eins og ég hafði séð fyrir mér. Hann stóð fyrir framan mig, yngri en ég hafði gert ráð fyrir, í dökkgráum jakkafötum með smá glans – eins og óþornuð steypa. Áður en ég náði að segja að það væri óþarfi að fara úr skónum var hann kominn úr þeim og steig inn á parketið, í ljósbrúnum sokkum. Ég bauð honum kaffi sem hann þáði. Áður en hann kom hafði ég tekið fram súkkulaði og brytjað niður í litla skál. Þegar ég stóð frammi fyrir skálinni inni í eldhúsi var það alveg skýrt fyrir mér að súkkulaðið var orðið allt of persónulegt – eiginlega dónalegt. Ég skyldi ekki bera það fram. Ég gekk inn í stofu með kaffið og tók eftir því að hann horfði ekkert í kringum sig. Hann hefði alveg mátt gera það, mín vegna. Spyrja út í bækurnar, myndirnar á veggjunum eða steinana í glugganum. Þetta er líklega eitthvað sem þeim er uppálagt að gera þegar þeir fara svona inn á heimili fólks. Að láta eins og þeir séu ekki beint þarna. Ég fann að þetta passaði ekki karakternum hans, hann var ekki lokaður, heldur opinn – ég myndi jafnvel ganga svo langt að segja að hann væri „emotionally available” –  sem er gríðarlega góður eiginleiki en kannski óþarfur í okkar samskiptum. Birtan inni í stofu hafði líka varpaði ljósi á það að hann var rauðbirkinn sem kom mér skemmtilega á óvart. Ég hafði ekki tekið eftir því í gluggalausu holinu. Svo sátum við hvort á móti öðru við borðstofuborðið, hvort með sína tölvu fyrir framan sig og spiluðum einhvers konar tryggingapóker, þar sem ég mátti ekki segja honum hver kjör mín væru hjá mínu tryggingafélagi. Skemmtilegast fannst mér þegar hann útskýrði fyrir mér sjúkdómatryggingarnar og hina fjóru mismunandi flokka sjúkdóma. Það eru tryggingafélögin sem hafa flokkað þessa sjúkdóma – í samráði við lækna, býst ég við. Hann sagði: Þú verður blind. Skiptir ekki máli hvernig þú verður blind, hvort þú missir augað í slysi eða færð augnsjúkdóm. Þú ert bara orðin blind og færð tíu milljónir. En svo einhverju síðar verðurðu heyrnarlaus, þá færðu ekki neitt af því að heyrnarleysið er í sama flokki og blindan. Ef þú færð hins vegar krabbamein þá færðu aftur tíu milljónir af því að krabbameinið er í öðrum flokki. Hann var svo jarðbundinn og skýr þegar hann sagði mér þetta allt saman að ég varð í senn heilluð og áhyggjufull. Tilboðið sem hann gerði mér var að lokum bara örfáum krónum hagstæðara en það sem ég var nú þegar með sem reyndist honum greinilega vonbrigði. Hann bætti þá við einhverjum auka fríðindum og ég sagðist myndi „hugsa málið” og um leið velti ég því fyrir mér hvort það væri til leiðinlegra orðasamband. Eða leiðinlegri afstaða til lífsins. Þannig að ég bætti við „þó að ég viti að hvorki sjúkdómar né dauði gefi manni tækifæri til að hugsa málið”. Hann sagði ekkert, heldur fór niður á vinstra hné til að klæða sig í skóna. Ég sá undir sokkana á vinstri fæti og þeir voru með gúmmígripi – eins og barnasokkar – til að renna ekki á parketi.

Margrét Bjarnadóttir (f. 1981) vinnur í ýmis form og ólíka miðla, einna helst á sviði dans og myndlistar. Undanfarin ár hefur hún m.a. fengist við kóreógrafíu, ljósmyndun, textaverk, trommuleik, glerskurð, myndbandsverk og skrif. Meðal nýjustu verka Margrétar eru sviðshreyfingar í Cornucopiu, tónleikasýningu Bjarkar og gítarballettinn No Tomorrow sem hún vann í samstarfi við Ragnar Kjartansson og Bryce Dessner fyrir Íslenska dansflokkinn.

Margrét H. Blöndal
Þessar klappir þekkti ég fyr,
þegar ég var ungur;
átti ég víða á þeim dyr,
eru þar skápar fallegir.1)


Klíptu mig þegar ég speisa út
þegar ég veit ekkert hvert ég er að stíga
eða er við það að hrasa í hálkunni.
Ég skil ekki grunnflatarteikningar. 


Jú, mig langaði til að hlaupa út í sumarnóttina
langaði til að syngja í garði með vinum
togaðist á milli ólíkra afla.
Fermetrar eru mér framandi.


Stundum ruglar nærveran og orðunum sleppir
— stundum skerpir fjarveran og orðin rata.


Biðukolla, biðukolla hvenær varstu túnfífill?
Ha...  bíddu  —  áðan   —   í gær?


Á hrísi
og háu grasi
er augna vegur,
en eigi fóta.2)


1) Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

2) Gamalt stef.Margrét H. Blöndal fæddist í Reykjavík árið 1970. Hún útskrifaðist frá Rutgers háskóla í New Jersey árið 1997 og fluttist heim þar sem hún hefur starfað sem myndlistarmaður síðan. Margrét hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum víðs vegar um heiminn. Hún hefur hlotið viðurkenningar kenndar við Richard Serra og Guðmundu Kristinsdóttur. Árið 2009 hlaut hún Laurenz Haus Stiftung sem gerði henni kleift að búa og starfa í Basel, Sviss í eitt ár. Hún hefur kennt nemendum frá leikskólaaldri og fram á háskólastig. Margrét starfar með i8 galleri Reykjavík.
Mark