Ólöf Helga Helgadóttir
Ólöf Helga Helgadóttir, Línan (hluti af innsetningu), 2019, Þurrkgrind, klemmur, maðurinn sem minnti á margt.
Ólöf Helga Helgadóttir (f. 1972) útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2005 og lauk mastersnámi í myndlist frá Slade School of Fine Art í London árið 2010. Árið 2001 stundaði hún örnám við Kvikmyndaskóla Íslands. Hún býr og starfar á Siglufirði.
Undanfarnar sýningar: Lítilsháttar væta - stafræn öld vatnsberans í Verksmiðjunni á Hjalteyri, 2019; Maðurinn sem minnir á margt í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði, 2019; Líkami, efni og rými í Listasafni Reykjanesbæjar, 2018.
Í verkum sínum ýtir Ólöf hversdagslegu efni út fyrir sitt hefðbundna hlutverk og varpar þannig óvæntu ljósi á kunnugleg sjónarhorn. Efnið sem hún notar hefur auk þess oft sögulega merkingu sem er mjög persónuleg.
Í Harbinger er teikningin í formi innsetningar sem unnin er í blandaða miðla þar sem ákveðin hreinsun á sér stað. Maðurinn sem minnir á margt birtist hér enn og aftur en hann hefur annað slagið birst í verkum listamannsins frá árinu 2015.
Titill sýningarinnar minnir á ítölsku teiknimyndaseríuna La Linea eftir teiknimyndahöfundinn Osvaldo Cavandoli. Serían fjallar um herra Línu sem labbar á endalausri línu sem hann er hluti af. Herra Lína verður fyrir ýmsum hindrunum sem reyna á þolrif hans og koma í veg fyrir að hann geti haldið áfram. Oftar en ekki reiðist hann skapara sínum sem birtist þá með blýant í hönd og teiknar lausn með misgóðum árangri. Í lok hvers þáttar endar línan óvænt og herra Lína hverfur.
Harbinger