SEQUENCES IXÍ ALVÖRU

11-20.OKTÓBER 2019INNGANGUR
-  HEIÐURSLISTAMAÐUR
-  LISTAMENN
-  TEXTAR
-  SÝNINGARSTAÐIR
-  DAGSKRÁ
-  UTANDAGSKRÁ
-  FRÉTTIR
-  UM SEQUENCES 
-  ARKÍF
LAUS STÖRFENGLISHSequences real time art festival er listamannarekin myndlistarhátíð sem haldin er annað hvert ár í Reykjavík.  Frá upphafi hefur verið lagt upp með að þar ríki andi frumkvæðis, tilrauna og áræðni. Stofnaðilar og ábyrgðaraðilar Sequences eru Kling & Bang (st. 2003), Nýlistasafnið (st. 1978) og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Sequences er rekin án hagnaðarsjónarmiða.


SEQUENCES
c/o Kynningarmiðstöð
íslenskrar myndlistar

Gimli, Lækjargötu 3
101 Reykjavík


00354 5627262
sequences@sequences.is ︎

Mark

Kristján Leósson
„No equation
to explain the division of the senses
No sound to reflect
the radiance of time“

(Patti Smith & Fred Smith, It takes time)


Hugtökin „raun“ og „tími“ eru hvort um sig nauðsynleg blekking – tilbúinn veruleiki sem fellur um sjálfan sig við alla nánari skoðun en er samt svo óþægilega fast rótaður í tengslum okkar við umhverfið, við okkur sjálf og við hvort annað.

Hvert okkar ákveður – eins og um sé að ræða hvaða hversdagslegu athöfn sem er – hvað það er sem gerir veruleika að „raun“-veruleika. Slík athöfn krefst þess þó að stærstum hluta þess sem tilheyrir umræddum „raun“-veruleika sé kastað burt – síaður gegnum skynfæri okkar mótast veruleikinn af takmarkaðri getu okkar til að vinna úr þeim upplýsingum sem bornar eru á borð.

Sú sameiginlega ímyndun að við deilum einum „raun“-veruleika er gróf en þó oftast óumflýjanleg nálgun. Veigamikill hluti af sameiginlegri nálgun okkar á hinn ímyndaða „raun“-veruleika er sú að við séum þátttakendur í einhvers konar flæði tímans – tíma sem við getum hvorki séð né mælt en án hvers við höfum enga tilvist, enga rödd, enga ímyndun.

Þegar við ræðum um „tíma“ þá göngum við út frá því að framtíðin sé nánast áþreifanlegt fyrirbæri, þrátt fyrir að hún hafi aldrei verið til og verði, eðli málsins samkvæmt, aldrei til. Sömuleiðis má sýna fram á að allt tal um fortíð sé merkingarlaust nema í óhlutbundnum skilningi – sem samantekt allra mögulegra fortíða. Við smíðum hina svokölluðu fortíð úr þeirri flækju fyrirbæra sem við skynjum í nútíðinni, fyrirbæra sem (virðast) hrúgast upp hraðar en þau eyðast og hverfa.

Það sem eftir stendur er því aðeins nútíðin. Þetta litla (en þó ekki óendanlega litla) bil sem við sitjum föst í er þó á sama hátt óáþreifanlegt – við deilum ekki nútíð með öðrum og ekki einu sinni með okkar nánasta umhverfi. Við vitum ekki hvað skilgreinir umfang nútíðarinnar, aðeins að hún er hverfandi stutt en tekur þó aldrei enda  – fyrr en allt tekur enda.

Lögmál náttúrunnar eru almennt samhverf með tilliti til tíma og allt tal um hvort hann líði áfram eða afturábak er því marklaust –  ef undan er skilin hin óumflýjanlega óreiðuaukning alheimsins sem leitast við að eyða öllu því sem við gefum merkingu. Í því samhengi má líta á okkar tilvist og alla okkar sköpun sem dæmi um staðbundinn tíma sem líður afturábak. Taki alheimurinn upp á því að dragast saman í stað þess að þenjast út verður þessu öfugt háttað, hvers kyns fyrirbæri hlaðin merkingu munu þá stöðugt verða til af sjálfu sér og listamenn verða þeir sem finna leiðir til að vinna gegn hinu óstöðvandi sköpunarafli tímans.
Vel má vera að úr mótsögnum um óraunveruleika tíma og raunveruleika verði best leyst „með því að ganga“ – solvitur ambulando – eins og sagt er að gríski heimspekingurinn Díógenes hafi gert þegar Zeno færði rök fyrir því að öll hreyfing væri ómöguleg. Best fer þó á því að láta lesendum eftir að gera slíkt upp við sjálfa sig.Kristján Leósson er menntaður í eðlisfræði, verkfræði og heimspeki og hefur undanfarna tvo áratugi aðallega starfað við hagnýtar rannsóknir í ljóstækni, efnistækni og nanótækni innan háskóla, rannsóknastofnana og nýsköpunarfyrirtækja. Hann hefur einnig unnið að fjölda verkefna með fólki af ólíkum fræðasviðum, allt frá líffræði og lyfjafræði yfir í hönnun og myndlist. Hann starfar nú sem þróunastjóri sprotafyrirtækisins DT-Equipment.


texti
Mark