SEQUENCES IXÍ ALVÖRU

11-20.OKTÓBER 2019INNGANGUR
-  HEIÐURSLISTAMAÐUR
-  LISTAMENN
-  TEXTAR
-  SÝNINGARSTAÐIR
-  DAGSKRÁ
-  UTANDAGSKRÁ
-  FRÉTTIR
-  UM SEQUENCES 
-  ARKÍF
LAUS STÖRFENGLISHSequences real time art festival er listamannarekin myndlistarhátíð sem haldin er annað hvert ár í Reykjavík.  Frá upphafi hefur verið lagt upp með að þar ríki andi frumkvæðis, tilrauna og áræðni. Stofnaðilar og ábyrgðaraðilar Sequences eru Kling & Bang (st. 2003), Nýlistasafnið (st. 1978) og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Sequences er rekin án hagnaðarsjónarmiða.


SEQUENCES
c/o Kynningarmiðstöð
íslenskrar myndlistar

Gimli, Lækjargötu 3
101 Reykjavík


00354 5627262
sequences@sequences.is ︎

Mark

    Kristinn G. Harðarson á vinnustofu sinni.
KRISTINN GUÐBRANDUR HARÐARSON

Heiðurslistamaður hátíðarinnar í ár verður Kristinn Guðbrandur Harðarson (f. 1955) sem hefur starfað ötullega í íslensku myndlistarlífi um áratuga skeið.
Í verkum Kristins á sér stað persónuleg og ljóðræn úrvinnsla á hans nánasta umhverfi þar sem hann notast við fjölbreyttar miðlunarleiðir, texta, útsaum, skúlptúra, veggmálverk, teiknimyndir og gjörninga svo fátt eitt sé nefnt. 
Kristinn mun halda einkasýningu í Ásmundarsal og gefa út bókverk, sem verður í leiðinni sjálfstætt sýningarrými.


“Heimurinn á fleygiferð”, 2017, veggmálverk (sýning: Listaverkasalan, Reykjavík)

“Heimurinn á fleygiferð”, 2017, veggmálverk (sýning: Listaverkasalan, Reykjavík)Útsaumur, 1987-88, útsaumur og liturÁn titils, olía á striga, 1993-97. Innkaupakerra á einskismannslandi. Þetta eru oft dularfullir staðir, draslaralegir og gleymdir, en geta líka verið dálítið ógnvænlegir, sérstaklega eftir að dimma tekur.  Í baksýn er stórt umferðarskilti hálfhulið trjám, og á stígnum leiðast ungir elskendur.  Unglingarnir ganga inn í myndina.

Án titils, 1993-97, olía á striga

Það var verið að steypa tröppur upp að útidyrum íbúðarhússins.  Mölin var sótt á traktor og steypan hrærð í steypuhrærivél. Eldri strákurinn á bænum — gæti verið um sjö ára — var viljugur að hjálpa til, hélt við hjólbörurnar og hjólið á hrærivélinni.  Eftir framkvæmdirnar gleymdist skrúfjárnið á girðingunni.
STIKAN OG LANDAKORTIÐ
H.K. Rannversson skrifar um Kristinn G. Harðarson


Kristinn G. Harðarson er ferðalangur sem fetar slóð milli lífsins og listarinnar. Hann hefur frá upphafi ferilsins staðsett sjálfan sig og list sína aðeins til hliðar við íslensku myndlistarsenuna, tileinkað sér sjónarhorn áhorfandans til að fá fjarlægð á hlutina í kringum sig. Um leið hefur hversdagurinn runnið saman við verk Kristins og skilin orðið óljós. Blörrí. Eins og þegar farið er í fjallgöngu rétt utan við borgina í þoku og borgin rennur saman við náttúruna. Það kemur ekkert sérstaklega á óvart að verk listamannsins hafi ekki farið hátt eða ratað á forsíður blaðanna, því hér er ekkert sem hæfir æsifregnum listheimsins. Hins vegar hefur Kristinn verið virkur í íslensku myndlistarlífi um áratugaskeið, hann hefur sinnt kennslu og sýningarstjórn, er stofnfélagi Nýlistasafnsins árið 1978 og einn af aðstandendum Gallerís Suðurgötu 7, þar sem fyrsta einkasýning hans fór fram ári seinna. Kristinn hefur ekki reynt að tolla í tískunni heldur haldið sínu striki. Og þrátt fyrir að hægt sé að skoða upphaf ferilsins undir lok áttunda áratugarins í samhengi við innreið Nýja málverksins á Íslandi, þá hafa verk hans snúist um hugmyndalega frekar en maleríska útfærslu myndlistarinnar. Listamaðurinn hefur þannig leyft hverju verki að kalla á sína úrlausn og beitt ólíkum aðferðum í listsköpun sinni, hvort sem er í formi teikninga, teiknimynda, skúlptúra, málverka, myndbanda, ljósmynda eða gjörninga. Formið er með öðrum orðum valið með frásögn verksins í huga:
stigi (á hreyfingu)
klettabelti (vatnslitamynd) *
Kristinn hefur líka oft valið bókina sem rými fyrir verk sín og hefur gefið út fjölda bókverka á ferlinum, sem meðal annars hafa tekið á sig dagbókarform og sem teiknimynda- eða ferðasögur. Ef finna ætti rauðan þráð (rauðar stikur) á ferli hans væri það áherslan á texta í myndverkunum, samband textans við myndina. Kristinn hefur um langt skeið rissað upp og skrifað niður það sem hefur vakið athygli hans í nánasta umhverfi, hvort sem er í náttúrunni, borginni eða í blaðinu á eldhúsborðinu. Þessir mynda- og textabútar fara óritskoðaðir í gegnum huga listamannsins á pappírinn, svolítið eins og krotið sem verður til alveg ósjálfrátt þegar þú talar við góðan vin í símann. Hér er ekki verið að hugsa um listrænt gildi, heldur fer fram persónuleg og listræn, ef til vill ljóðræn úrvinnsla á hversdeginum. Bókin er ákjósanlegur miðill og form í þessu samhengi, hún er rými þar sem hið raunverulega og skáldaða rennur saman. Á sýningunni í Ásmundarsal bætist bókin Dauðabani við höfundarverk listamannsins. Hér hefur Kristinn unnið markvisst upp úr miklu magni af rissi og kroti hversdagsins, pælt í útfærslumöguleikum og aðgreint mynd og texta. Bókin líkist í fyrstu gamaldags livre d’artiste, tegund myndskreyttra ljóðabóka sem skáld og myndlistarmaður unnu saman, þar sem textanum fylgir myndskreyting. Í bók Kristins verður víxlverkun milli þessara tveggja þátta, sem er ef til vill ekki skrítið í ljósi þess að hún er unnin af einum og sama manninum. Þannig verður myndin stundum til á undan textanum, og hann verður myndskýring. Annars staðar er textinn fyrstur og þá verður til skýringarmynd. En oftar en ekki verður þetta til samtímis í huga listamannsins og ef hann gerir breytingu á myndinni (peppar upp rauða litinn!), þarf að hnika textanum til. Og öfugt. Nú gæti einhver velt fyrir sér hvort það sé ekki byggt á einhverjum misskilningi Kristins að standa að útgáfu bókar á hátíð sem leggur áherslu á tímatengda miðla og verk sem unnin eru í rauntíma? Svo vitnað sé í endurtekna setningu bókarinnar: Hvað er að gerast?? Um miðjan áttunda áratuginn, þegar Kristinn var í námi við Myndlista- og handíðaskólann, skrifaði Ulises Carrión frá Amsterdam eftirfarandi: ,,Bók er röð af rýmum. Hvert og eitt rými er skynjað á ólíku augnabliki – bók er líka röð af augnablikum“. Ætli Kristinn hafi lesið texta Carrións í námsdvöl sinni í Hollandi nokkrum árum seinna? Það er ekki ólíklegt, því að á sýningunni er bókin í raun sjálfstætt sýningarými sem hægt er að gægjast inn í með lestri, bæði mynd- og textalestri, ganga í spor Kristins. Bókin er ,,rými-í-tíma-röð“. Á sýningunni hafa texti og mynd sloppið út úr þessu rými bókarinnar og út í sýningarými Ásmundarsals, sameinast og tekið á sig form málverka unnin beint á veggi salarins auk misstórra teikninga og tölvuprents á pappír. Hér hefur Kristinn útfært verkin sem eru að finna í bókinni á nýjan hátt, breytt lögun myndanna og sumstaðar stytt textann. Um leið eru þau komin í samtal við nokkur eldri verk og sýningar listamannsins sem vert er að nefna. Verkin kallast á við málverk sem Kristinn vann snemma á ferlinum, uppúr 1980, þar sem texta og myndefni úr fjölmiðlum var skeytt saman. Sýninguna í heild má svo sjá sem framhald af sýningunni Skjól sem Kristinn hélt fyrir tíu árum í Kubbnum, sýningarými Listaháskóla Íslands, og unnin var í samstarfi við skólann og nemendur í Listfræði við Háskóla Íslands. Þar voru til sýnis verk sem einnig voru unnin upp úr skissum listamannsins, þar sem Kristinn velti fyrir sér samhengi texta og myndar í lógó-forminu. Hér eru verkin líka einhverskonar merki sem vísa í óljósa átt en eiga öll upphaf sitt í einstökum hugarheimi listamannsins.

Á þessari níundu Sequences hátíð fá áhorfendur að horfa á umhverfið frá sama sjónarhorni og Kristinn G. Harðarsonar í augnablik, eða um ókominn tíma allt eftir því hvort þeir taka með sér bókina af sýningunni eða ekki. Það er þessi víðsýni yfir lífið og listina sem gerir hann að eftirlæti margra myndlistarmanna,,,listamanni myndlistarmanna”: Sá sem hægt er að treysta á að komi ávallt á óvart, hversu þversagnakennt sem það kann að hljóma. Í list Kristins meikar þetta hins vegar sens, því verkin verða til í rýminu sem liggur á milli hlutanna, milli texta og myndar. Milli lífs og listar.


*Höfundur fær að láni úr verki KristinsG. Harðarsonar sem birtist í tímaritinuKÍM (Reykjavík: Gunnar Vilhelmsson ogSigríður Vala Haraldsdóttir, 1981)


Mark