Agnes Martin

Agnes Martin, stilla úr Gabriel, birt með leyfi Pace Gallery.
Kanadísk-bandaríska myndlistarkonan Agnes Martin (1912-2004) er kunn um allan heim fyrir róttæk abstraktmálverk sem einkennast af fíngerðum línum, láréttum og lóðréttum og mildum og slæðukenndum litum. Myndlist hennar vísar ekki á neinn hátt til ytri veruleika heldur leitaðist Martin í verkum sínum við að fanga tærar tilfinningar og upphafningu hugans, málverkum hennar hefur verið líkt við sjónræna tónlist eða möntrur.
Gabriel (1976), sem er eina kvikmyndin sem Agnes Martin gerði um ævina, er 78 mínútna löng, tekin upp í suðvesturhluta Bandaríkjanna (Nýju Mexíkó, Kaliforníu, Colorado) og fylgir eftir drengnum Gabriel á ferð í náttúrunni. Á milli þess sem við horfum á piltinn á gangi eftir skógarstígum, fjalllendi og meðfram lækjarfarvegum beinist sjónarhornið að náttúrufyrirbærum en myndin hefur að geyma löng nærmyndaskot af blómum, trjám, vatni og eyðimerkursandi svo dæmi séu tekin. Gabriel er tekin á handhelda kvikmyndavél sem Martin stjórnar sjálf og vel má skynja persónulegt handbragð hennar í eilítið flöktandi kvikmyndatökunum. Ef undan eru skilin stutt brot úr Goldberg-tilbrigðum J. S. Bachs sem hljóma af og til, nokkrar mínútur í senn, er kvikmyndin þögul. Sjálf sagði Agnes Martin að Gabriel væri mynd um fegurð, sakleysi og alsælu sem eru lykilhugtök í höfundaverki listakonunnar.
Bíó Paradís